Skoðun

Gagnast lenging fæðingar­or­lofs öllum?

Ágústa Rúnarsdóttir og Rannveig Ernudóttir skrifar

Á síðustu starfsdögum sínum fyrir jól lögfesti Alþingi lengingu fæðingarorlofs á Íslandi úr níu mánuðum í tíu og er stefnan að lengja það í tólf mánuði árið 2021. Breytingin er vissulega jákvætt skref í rétta átt en við þessa ákvörðun virðast fyrirliggjandi lög ekki hafa verið skoðuð með gagnrýnum augum, sérstaklega hvernig skipta eigi orlofinu á milli mæðra og feðra og af hverju það er mikilvægt að stilla þeirri skiptingu upp með þarfir ungbarna í huga. 

Sérstakt fæðingarorlof feðra varð til á Íslandi eftir aldamótin síðustu og frá árinu 2003 hafa feður átt rétt á þriggja mánaða óframseljanlegu orlofi með nýfæddu/ungu barni sínu. Með feðraorlofinu lengdist fæðingarorlofið í heild úr sex mánuðum í níu, mæður áttu þrjá mánuði, feður þrjá og þrír mánuðir voru sameiginlegur réttur beggja foreldra sem þeir gátu ráðstafað að vild og hentugleika. Þetta fyrirkomulag hefur vakið athygli víða um heim og enginn vafi leikur á að lög um fæðingarorlof frá árinu 2000 hafi lyft grettistaki í jafnréttismálum á Íslandi, bæði hvað varðar launamun kynjanna og þátttöku karla í frumbernsku barna sinna. Það breytir því þó ekki að óleiðréttur launamunur kynjanna er enn um 15% samkvæmt tölum Hagstofunnar frá árinu 2017 svo fleira þarf greinilega að koma til. Feðraorlofið sýndi fram á að feður væru vel hæfir til þess að sinna ungum börnum sínum og að þeir vildu flestir gjarnan taka þátt í að annast þau. Sú niðurstaða styrktist svo enn frekar í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar á styttingu vinnuvikunnar þar sem feður sögðu sérstaklega frá því að þeir nytu þess að geta tekið meiri þátt í umönnun barna sinna og heimilislífi fjölskyldunnar. 

Í umræðu um fæðingarorlof á Íslandi væri því óheiðarlegt að líta framhjá þeim áhrifum sem óframseljanlega feðraorlofið hefur haft. Launamunur kynjanna minnkaði og almennt kynjajafnrétti jókst eftir að feður voru skikkaðir í fæðingarorlof og skiptingin á milli foreldra var höfð föst. Það var skynsamleg og afar framsækin tilraun á sínum tíma en henni fylgdu kostir og gallar. Einn af kostunum er ljóslega sá að samfélagslega þótt það eðlilegra að feður færu í fæðingarorlof og staða kvenna á atvinnumarkaði varð betur tryggð þó svo að móðir gengi með og kæmi barni í heiminn. Ungt fólk sem eignast sitt fyrsta barn um og upp úr tvítugu á árinu 2020 þekkir ekki annað en að feður eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs og það fólk varð jafnvel þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga pabba sem var heima á fyrstu ævimánuðum þess.

Ekkert er þó hafið yfir gagnrýni og þrátt fyrir marga góða kosti þessa fyrirkomulags fylgja því líka ókostir. Þannig er kerfið til dæmis ósveigjanlegt á köflum og tekur ekki tillit til mismunandi aðstæðna foreldra. Eitt skýrasta dæmið varðar einstæða foreldra. Ef foreldrarnir eru ekki í sambúð og faðir hefur ekki áhuga á að taka þátt í lífi barns síns er algengt að þrír mánuðir af níu hafi ekki verið nýttir í þágu barnsins, ýmist af því að faðir tekur orlofið en sinnir ekki barni sínu eða einfaldlega tekur orlofið ekki. Annað augljóst óhagræði af þessum ósveigjanleika tengist brjóstagjöf. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Landlæknir mæla með því að börn nærist eingöngu á brjóstamjólk fyrstu sex mánuði ævinnar og séu mikið á brjósti út fyrsta árið. Á það hefur verið bent að þessar ráðleggingar rími illa við ósveigjanleika í skiptingu fæðingarorlofs á milli föður og móður en til varnar því viðhorfi að orlofið eigi að vera lítið sem ekkert framseljanlegt hafa sérfræðingar í jafnréttismálum bent á að ef barn er enn á brjósti þegar móðir fer aftur að vinna geti móðir notað brjóstapumpu til að mjólka sig og einnig að móðir eigi rétt á svokölluðum gjafapásum í vinnunni. Slíkar tillögur hafa vissulega ákveðið skemmtanagildi en þær gera því miður ráð fyrir því að alltaf sé hægt sé að leysa barnaumönnun með einföldum lausnum. Börn eru misjöfn og störf mæðra þeirra geta verið með þeim hætti að ekki sé hægt að treysta á fyrirfram ákveðna tíma þar sem móðir geti fari afsíðis og gefið barni sínu brjóst. Sundkennarar, skurðhjúkrunarfræðingar og dómtúlkar gætu til dæmis lent í vandræðum. Einnig getur starf móðurinnar verið það langt frá heimilinu að þessi ,,lausn’’ gangi ekki upp, þrátt fyrir að allir pabbar elski að rúnta með svöng smábörn.

Í ljósi sögunnar er því viðbúið og sumpart eðlilegt að talað sé um fæðingarorlof sem mikilvægt tæki til að útrýma launamun kynjanna og til að jafna stöðu karla og kvenna í atvinnulífinu. Af einhverjum ástæðum fer hins vegar minna fyrir umræðunni um rétt nýfæddra/ungra barna til að vera sem lengst heima í umsjá þess/þeirra aðila sem það tengist mest. Það er eins og þráin eftir kynjajafnrétti trompi í hugum margra réttindi barna og þau rök eru jafnvel sett fram að það sé jú börnum fyrir bestu að búa í kynjahallalausu samfélagi, þar af leiðandi eigi að útrýma sameiginlega réttinum og eyrnamerkja hvoru foreldri helminginn af orlofinu. Það er hins vegar léleg jafnréttisbarátta sem virkar bara ef börn eru látin borga fyrir lausnirnar og það er undarlegur feminismi að fara fram á að konur vinni meira (til jafns við feður) frekar en að feður vinni minna (eins og mæður). Þörf barna fyrir foreldra sína má ekki og á ekki að víkja fyrir mikilvægi þess að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Fjölskyldur eru misjafnar að samsetningu og gerð, börn eru misjöfn og foreldrar eru það líka, þar af leiðir að ósveigjanleiki við töku fæðingarorlofs verður aldrei annað en íþyngjandi hvað hagsmuni barnsins varðar. Takmörkun fæðingarorlofsgreiðslna við 80% af tekjum foreldranna eykur svo á ójafnréttið á milli efnaminni og efnameiri heimila. Hún hefur haft þau áhrif að tekjulág heimili nýta síður allt orlofið af því heimilið hefur ekki efni á því að tekjuhærri einstaklingurinn, oft en þó alls ekki alltaf faðir barnsins, taki fæðingarorlof. Svo má líka velta fyrir sér, bæði í gamni og alvöru, hver rökin eru fyrir því að rekstur heimilis verði ódýrari á meðan foreldrar sinna nýfæddum börnum sínum. Rafmagn, hiti og kíló af ýsu handa þeim sem fyrir eru á garðanum kosta ekkert minna þótt nýi einstaklingurinn á heimilinu taki ekki mikið til sín fyrstu mánuðina.

Í ljósi þess sem fram hefur komið hlýtur að mega spyrja hvort það sé eðlilegt að njörva skiptingu fæðingarorlofs niður á milli foreldra í þágu jafnréttis. Þá má einnig velta fyrir sér hvort hagsmunum ungbarnsins væri betur borgið ef barnið ætti réttinn til fæðingarorlofs í stað foreldranna, sem gætu þá stýrt og stjórnað sinni orlofstöku eins og hentaði fjölskyldunni og barninu best. Að ekki sé nú minnst á þá framsýnu nálgun sem gæti nýst sumum fjölskyldum vel að ömmur og afar gætu tekið fæðingarorlof og annast barnið á launum. Eins og fram hefur komið var rétturinn til fæðingarorlofs lengdur í tíu mánuði nú um áramótin og til stendur að lengja hann í tólf mánuði á næsta ári. Samkomulag um skiptingu orlofsins á milli mæðra, feðra og sameiginlega réttarins liggur ekki fyrir. Fulltrúar stjórnarflokkanna þurfa að finna einhvers konar málamiðlun varðandi skiptinguna, enda harla ólíklegt að farið verði alla leið í aðra af þeim ólíku áttum sem lýst er hér að ofan. Nauðsynlegt er að fara bil beggja, halda inni eyrnamerktum rétti feðra en jafnframt auka á sveigjanleikann þar sem orlofið er ekki lengra en raun ber vitni og enn of stutt til þess að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistunar. 

Því skorum við á stjórnarflokkana að ganga eins langt og mögulegt er í þá átt að fæðingarorlofið verði fyrst og fremst eyrnamerkt börnum. Einnig að orlofið verði gert það langt að bæði verði hægt að setja þarfir barna í fyrsta sæti og stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði. Því væri æskilegast að réttur til fæðingarorlofs yrði átján mánuðir til tvö ár en þannig væri hægt að útrýma þrasi um hvoru ætti að gera hærra undir höfði, jafnrétti kynjanna eða þörfum barna. Við slíkar aðstæður yrði auðveldara að setja þau skilyrði að foreldrar skiptu orlofinu jafnt á milli sín. Ramminn sem okkar stutta fæðingarorlof er fest í er heftandi og hefur ekki gagnast öllum. Í sumum tilfellum hafa börn hreinilega orðið af hluta fæðingarorlofsins og þar með tíma með sínum nánustu sem er svo mikilvægur á fyrsta árinu í lífi hvers einstaklings. Ef fæðingarorlofið á að gagnast öllum og þjóna réttindum barna þarf að taka mið af öllu sem skiptir máli, þörfum barnsins, mismunandi foreldrum, misjafnlega samsettum fjölskyldum og ólíkum aðstæðum í lífi fólks. Á síðustu tuttugu árum hefur leiðarljósið í fæðingarorlofsfræðum á Íslandi verið kynjajafnrétti. Við leggjum til að á næstu tuttugu árum verið réttindi og hagsmunir barna sett í fyrsta sæti, án þess þó að taka af feðrum þann rétt sem þeir hafa nú þegar fengið og hefur gert svo mikið fyrir jafnrétti á vinnumarkaði. Þessum markmiðum má auðveldlega ná með því að velja skiptinguna 3-3-6 þegar stjórnarliðar setjast niður og ákveða útfærslu á tólf mánaða fæðingarorlofi. Þannig verði sérmerktur réttur hvors foreldris fyrir sig áfram þrír mánuðir en sex mánuðum verði foreldrum frjálst að ráðstafa eftir því sem hentar þeim og barninu þeirra best. Að auki er það gríðarlegt réttlætismál að börnum einstæðra foreldra verði ekki mismunað í tuttugu ár í viðbót. Það er nútímaþjóðfélagi til skammar að ómálga smábörn sitji ekki við sama borð hvað varðar samveru með sínum nánustu á viðkvæmasta æviskeiðinu og að þeim sé boðið upp á þetta óréttlæti í nafni kynjajafnréttis er ekkert annað en grátlegt.

Nýleg lenging fæðingarorlofsins gagnast ekki einstæðum mæðrum og gerir ekkert fyrir brjóstagjöf og þær fjölskyldur sem þurfa á auknum sveigjanleika að halda við umönnun barna sinna. Yfirlýsingar um að nýleg lenging fæðingarorlofsins gagnist öllum eru því orðum auknar, svo ekki sé meira sagt. 

Höfundar eru mæður.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×