Erlent

Hæsta hættu­stigi lýst yfir á heims­vísu vegna kórónu­veirunnar

Sylvía Hall skrifar
Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus.
Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus. Vísir/Getty

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tilkynnti í dag að hættustig vegna kórónuveirunnar væri komið á hæsta stig. Útbreiðsla veirunnar væri orðin mikil en enn væri hægt að ná að hefta hana ef smitkeðjan yrði rofin.

Þetta kemur fram á vef BBC en tilfelli hafa nú greinst í fimmtíu löndum, þar á meðal hér á landi í dag. Þá var einnig greint frá fyrstu tilfellum í Nígeríu, Mexíkó, Nýja-Sjálandi, Hvíta-Rússlandi og Hollandi í dag.

Sjá einnig: Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar á Íslandi

Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sagði á blaðamannafundi í dag að hægt væri að greina flest tilfelli og það væri ekkert sem benti til þess að hún væri að dreifast „frjálslega innan samfélaga“. Stærstu áskoranirnar að svo stöddu væru ótti og rangar upplýsingar um veiruna sjálfa.

Yfir áttatíu þúsund hafa smitast og um það bil 2.800 hafa látist vegna veirunnar. Flest dauðsföllin eru innan Hubei-héraðsins í Kína.

Dr. Mike Ryan, yfirmaður bráðadeildar stofnunarinnar, sagði hættustigið vera til þess fallið að ítreka alvarleika málsins. Ríkisstjórnir um allan heim ættu að bregðast við og vera tilbúinn til þess að takast á við veiruna þar sem mörg heilbrigðiskerfi væru ekki búin undir álagið.

„Þið þurfið að uppfylla skyldur ykkar gagnvart borgurum ykkar, þið þurfið að uppfylla skyldur ykkar gagnvart heiminum öllum og vera tilbúin,“ sagði Ryan.


Tengdar fréttir

Mikill meirihluti fær væg einkenni flensunnar

Fyrsta tilfelli Covid-19 kórónuveirunnar var greint hér á landi í dag. Karlmaður um fimmtugt, sem var á ferðalagi um norður Ítalíu liggur veikur á spítala. Viðbúnaðarstig almannavarna hefur verið hækkað úr óvissustigi í hættustig. Almenningur er beðinn að sýna stillingu og fylgja fyrirmælum yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×