Erlent

Kanada­menn hætta brátt að borga reikninginn vegna öryggis­gæslunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Þau Harry og Meghan munu formlega hverfa úr framlínu bresku konungsfjölskyldunnar síðasta dag marsmánaðar.
Þau Harry og Meghan munu formlega hverfa úr framlínu bresku konungsfjölskyldunnar síðasta dag marsmánaðar. Getty

Kanadamenn munu brátt hætta að borga fyrir þá öryggisgæslu sem fylgir veru hertogans og hertogaynjunnar af Sussex í landinu.

Stjórnvöld í Kanada greindu frá því í gær að yfirvöld þar í landi muni senn hætta að sjá þeim Harry og Meghan fyrir öryggisgæslu í takt við breytt hlutverk þeirra.

Kanadamenn hafa séð þeim og greitt fyrir öryggisgæslu frá því að hjónin fluttu til landsins í nóvember síðastliðinn, en þegar greint var frá ákvörðun þeirra að hverfa úr framlínu bresku konungsfjölskyldunnar í janúar síðastliðinn vöknuðu spurningar um hverjir myndu sjá þeim fyrir öryggisgæslu. Hefur Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, verið þráspurður af fjölmiðlum um hvernig málum verði háttað.

Harry og Meghan munu formlega láta af stöðu sinni í framlínu konungsfjölskyldunnar síðasta dag marsmánaðar. Munu þau þá hætta að sinna verkefnum í nafni hennar hátignar, en fyrirkomulagið verður endurskoðað að ári.

Í frétt BBC segir að ekki sé ljóst á þessu stigi hvernig fyrirkomulagið verður varðandi öryggisgæslu þeirra hjóna.

Harry og Meghan hafa sagst ætla að verja tíma sínum bæði í Bretlandi og Norður-Ameríku en þau stefna að því að koma á fót góðgerðarstofnun í sínu nafni. Hafa deilur staðið um hvort að þau megi nota orðið „royal“ (í. konunglegur) í markaðssetningu og á samfélagsmiðlum. Þau Harry og Meghan hafa notast við vörumerkið „SussexRoyal“ á samfélagsmiðlum, en má nú ljóst vera að þau munu losa sig við orðið sem deilurnar standa um.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×