Innlent

Appel­sínu­gul veður­við­vörun á Suður­landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er spáð rysjóttu veðri síðdegis og til laugardagsmorguns með tilheyrandi viðvörunum víða um land.
Það er spáð rysjóttu veðri síðdegis og til laugardagsmorguns með tilheyrandi viðvörunum víða um land. veðurstofa íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun fyrir Suðurland. Viðvörunin tekur gildi klukkan 18 í kvöld og gildir til miðnættis.

„Austan stormur eða rok, 23-28 m/s og vindhviður allt að 40 m/s. Fyrst austan til á svæðinu, einkum undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum en einnig með suðurströndinni seinna í kvöld. Stórhríð og skafrenningur. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi,“ segir á vef Veðurstofunnar um viðvörunina.

Frá því klukkan eitt í dag hefur gul viðvörun verið í gildi á Suðurlandi. Gul viðvörun tekur aftur gildi á miðnætti þegar sú appelsínugula fellur úr gildi og gildir til klukkan sex annað kvöld.

Þá eru nú þegar einnig gular viðvaranir í gildi fyrir Faxaflóa og höfuðborgarsvæðið. Gul viðvörun virkjast svo á Suðausturlandi klukkan sjö í kvöld og á miðnætti virkjast gul viðvörun fyrir miðhálendið.

Austan hvassviðri geisar á landinu, víða 15 til 23 metrar á á sekúndu seinni partinn en þó er hægara og úrkomuminna fyrir norðan.

Óveðrið spillir færð en Suðurstrandavegur er lokaður eins og er. Óvissustig er á Reykjanesbraut en til lokunar gæti komið með skömmum fyrirvara. Hið sama gildir um Hellisheiði og Grindavíkurveg. Vegfarendur ættu því að fylgjast vel með færð á vegum og fara að öllu með gát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×