Erlent

Kórónuveirusmit staðfest í Noregi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Geir Bukholm og Line Vold, bæði hjá Lýðheilsustofnun Noregs, á blaðamannafundinum þar sem tilkynnt var um smitið.
Geir Bukholm og Line Vold, bæði hjá Lýðheilsustofnun Noregs, á blaðamannafundinum þar sem tilkynnt var um smitið. Vísir/AP

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar sem valdið getur Covid-19 sjúkdómnum hefur verið staðfest í Tromsø í Noregi. Þetta var staðfest á blaðamannafundi Lýðheilsustofnunar Noregs í dag.

Fjallað er um málið á vef norska ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að um sé að ræða konu sem hafi verið stödd í Kína síðustu helgi. Hún hafi síðan verið prófuð og niðurstöður sýnatöku staðfestu að hún væri smituð af kórónuveirunni.

Haft er eftir Kathrine Kristoffersen ráðgjafa að Tromsø hafi komið sér upp aðgerðaáætlun vegna veirunnar og að síðustu dagi hafi farið fram undirbúningur undir mögulegt smit.

„Smitið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit, þar sem prófanir eru framkvæmdar á öllum þeim sem koma frá svæðum í [Kína] þar sem margir hafa smitast,“ segir Kristoffersen.

Þó segir hún að lítil hætta sé á að konan smiti aðra, þar sem hún sé nú í sóttkví á heimili sínu. Læknir hefur daglega samband við konuna í síma til þess að fylgjast með stöðu mála.

Smithætta í Noregi eykst

Line Vold, deildarstjóri við Lýðheilsustofnun Noregs, segir líkurnar á því að smitast af kórónuveirunni í Noregi aukast samhliða því sem veiran greinist í æ fleiri löndum.

Í gær höfðu verið tekin sýni af alls 100 Norðmönnum án þess að smit hefði verið staðfest. Þó bárust fregnir af því fyrr í dag að norskur háskólanemi á Ítalíu hefði verið lagður inn á spítala með veiruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×