Skoðun

Á­kall um aukinn jöfnuð

Logi Einarsson skrifar

Harka hefur færst í kjarabaráttu í landinu. Hátt í tvö þúsund einstaklingar hafa lagt niður störf hjá Reykjavíkurborg - og stefnir í tuttugu þúsund manna verkfall hjá hinu opinbera í mars.

Krafan um aukinn jöfnuð - um ásættanleg lífskjör fyrir alla landsmenn – verður sífellt háværari.

Það er sama hvað formaður Sjálfstæðisflokksins tönnlast á kaupmáttaraukningu og stöðugleika, það vita allir sem vilja vita að fólk dregur ekki - eða í besta falli varla - fram lífið af lægstu launum sem greidd eru á Íslandi. Markvisst hefur verið grafið undan jöfnunartækjum hins opinbera - barnabætur eru orðnar að nokkurs konar fátæktarhjálp og vaxtabætur heyra sögunni til.

Önnur augljós staðreynd er að þau sem sjá um umönnum sjúkra, aldraðra, fatlaðra og kennslu barna fá langtum lægri laun en boðlegt er. Og það er réttmæt og tímabær krafa að þessi störf, sem konur sinna að langmestu leyti, séu metin að verðleikum.

Þessi störf eru að miklu leyti á forsjá sveitarfélaga. Þau eru unnin á hjúkrunarheimilum, í leik- og grunnskólum og í félagslega kerfinu. Við þurfum kerfisbreytingu - en tekjur sveitarfélaga standa illa undir henni því sveitarfélög hafa takmarkaðar leiðir til að afla tekna. Ekki fá sveitarfélögin hluta gistináttagjalds fyrir gistingu innan þeirra, eða hluta fjármagnstekna sem verða til í landinu, þrátt fyrir að þau sem afli þeirra nýti vissulega þjónustu sveitarfélaganna.

Það er eitt af hlutverkum Alþingis að tryggja að sveitarfélög hafi burði til þess að standa undir breytingu á uppbyggingu launa og vinna með þeim og verkalýðshreyfingunni að nýrri nálgun á umönnunarstörf - hvort sem þau eru unnin hjá ríkinu, borginni eða öðrum sveitarfélögum landsins.

Verkalýðshreyfingin og vinstri vængur stjórnmálanna deila hér markmiðum og sýn, og við verðum að vinna að henni saman.

Tölum hispurslaust um skattkerfisbreytingar, endurskoðun barnabótakerfisins, róttækar aðgerðir í húsnæðismálum og tekjur af auðlindum samfélagsins.

Það er eina leiðin til þess að jafna lífskjör, byggja upp réttlátt þjóðfélag og auka traust.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×