Innlent

Dómur fallinn í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Vísir/Vilhelm

Brynjar Steingrímsson, Halldór Anton Jóhannesson og Dagur Kjartansson voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdir í fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Brynjar var dæmdur í sjö ára fangelsi, Halldór Anton í sex og hálfs ára fangelsi og Dagur í sex ára fangelsi fyrir að hafa staðið að innflutningi að 16,2 kílóum af kókaíni.

Greint var frá málinu í ágúst á síðasta ári þegar fram kom að héraðssaksóknari hafði ákært þrjá unga Íslendinga fyrir að flytja 16 kíló af kókaíni til landsins í gegn um Keflavíkurflugvöll í maí. Lögregla hefur aldrei lagt hald á meira magn af efninu í einu lagi. Miðað við söluverð sem má kynna sér á vef SÁÁ má sjá áætla að söluverðmæti kílóanna sextán gæti verið um hálfur milljarður króna.

Keflavík - Frankfurt - Amsterdam

Halldór og Dagur ferðuðust til Hollands í maí á síðasta ári þar sem þeir hittu tvo óþekkta aðila. Tóku þeir hvor á móti sinni ferðatöskunni. Í töskunum voru fíkniefnin falin undir fölskum botni, rúm átta kíló í annarri og tæp átta kíló í hinni.

Eftir að hafa verið í Amsterdam tóku þeir lest til Frankfurt þar sem þeir innrituðu töskurnar með fíkniefnunum í flug til Keflavíkur daginn eftir. Yfirvöld á flugvellinum í Frankfurt fundu fíkniefnin í ferðatösku hjá öðrum þeirra og yfirvöld á Keflavíkurflugvelli í tösku hins. Báðir voru handteknir við komuna til landsins á Keflavíkurflugvelli þann 12. maí.

Brynjar var sagður hafa fengið hina tvo til að flytja inn fíkniefnin, látið þeim í té fé til að kaupa flugmiðana, reiðufé til að kaupa gistingu og gefið þeim fyrirmæli.

Mennirnir þrír voru sömuleiðis ákærðir fyrir peningaþvætti. Brynjar var ákærður fyrir rúmlega nítján milljóna króna peningaþvætti. Um var að ræða ávinning af innflutningi, sölu eða dreifingu ótiltekins magns fíkniefna sem lagðir voru inn á bankareikning hans af ýmsum aðilum og honum sjálfum.

Dagur og Halldór voru ákærðir fyrir samskonar peningaþvætti. Halldór fyrir að þvætta á sjöundu milljón króna frá 1. janúar 2018 til 13. maí 2019.

Dagur virðist hafa verið neðstur í keðjunni ef marka má upphæðirnar sem um ræðir. Peningarnir sem komu inn á hans reikning námu í heildina um 1,5 milljón króna en um var að ræða innlögn frá hinum mönnunum tveimur.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×