Innlent

„Auð­vitað margir ó­sáttir að hafa ekki vitað af þessu fyrirfram“

Sylvía Hall skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir engin stórvægileg vandamál hafa komið upp eftir að breyttar reglur tóku gildi varðandi komu ferðamanna hingað til lands í dag. Ríkisútvarpið greindi frá því í dag að um þrjátíu þýskir ferðamenn hafi ekki vitað af því að þeir þyrftu í fimm daga sóttkví.

Að sögn Víðis er reynt að leiðbeina fólki og því veittar upplýsingar um gististaði sem eru í boði. Allt kapp hafi verið lagt á að koma upplýsingum til skila en það hafi ekki náð til allra.

„Ég held það hafi engin stórvægileg vandamál komið upp, það eru auðvitað margir ósáttir að hafa ekki vitað af þessu fyrirfram. Svona er þetta þegar hraðinn er mikill. Þrátt fyrir að við höfum reynt að koma miklum upplýsingum frá okkur að þá náði þetta ekki til allra,“ segir Víðir í samtali við fréttastofu.

Um 250 staðir hafa skráð sig á lista Ferðamálastofu yfir staði sem hýsa fólk í sóttkví, en með breyttum reglum þurfa allir í tvöfalda skimun og 4-5 daga sóttkví við komuna til landsins. Víðir segir bætt hafa verið í upplýsingagjöf en endanleg útfærsla á öllum textum hafi ekki farið út fyrr en í gærkvöldi.

„Þetta er náttúrulega á átta tungumálum á covid.is. Við erum búin að setja inn alls staðar á ensku og úr öllum þeim tungumálum sem við erum búin að fá úr þýðingu. Það er unnið daga og nætur við að fá þetta inn en hraðinn er mikill eins og allir vita,“ segir Víðir.


Tengdar fréttir

Sér fyrir sér skimanir á meðan veiran er í vexti er­lendis

Nýjar reglur um skimanir á landamærum tóku gildi á miðnætti. Fjórum ferðum Icelandair hefur verið aflýst í dag. Sóttvarnalæknir sér fyrir sér hertar takmarkanir á landamærum um mánaðabil eða á meðan veiran er í vexti erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×