Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur fyrirskipað að mótmælaalda sem staðið hefur yfir í landinu undanfarna tíu daga verði kveðin niður með snarhasti. Mótmælin hófust eftir að Lúkasjenkó var endurkjörinn í fimmta sinn í forsetakosningum.
Harðlega hefur verið deilt um niðurstöður kosninganna og segja andstæðingar Lúkasjenkó að úrslit þeirra hafi verið ráðin fyrir fram. Samkvæmt opinberum niðurstöðum hlaut Lúkasjenkó yfirburðakosningu og er sagður studdur af yfir 80% kjósenda.
Stjórnvöld Evrópuríkja hafa eftir kosningarnar neitað að viðurkenna sigur Lúkasjenkó og samþykkti leiðtogaráð Evrópusambandsins í dag að beita viðskiptaþvingunum gegn Hvíta-Rússlandi vegna forsetans. Forseti leiðtogaráðsins, Charles Michel, sagði að það væri ljóst að Evrópusambandið viðurkenni ekki niðurstöður kosninganna og kallaði eftir því að þeim mótmælendum sem hafa verið hnepptir í varðhald verði látnir lausir.
Var ákvörðunin tekin eftir að Svetlana Tíkanovskaja, sem var helsti mótframbjóðandi Lúkasjenkó, hafði kallað eftir viðbrögðum ESB við upprisu Hvít-rússa
Tíkanovskaja flúði land eftir kosningarnar og dvelur nú í Litháen.

Lúkasjenkó forseti hefur þó ekki látið gagnrýni á sig fá og hefur skipað nýja ríkisstjórn. BBC hefur þá eftir forsetanum að hann hafi kallað eftir því að mótmælin verði kvödd niður.
Er forsetinn sagður hafa sagt við öryggisráð sitt að ekki ættu að verða frekari mótmæli í höfuðborginni Mínsk.
„Fólk er þreytt og vill frið og ró,“ sagði Lúkasjenkó sem hefur einnig hert landamæragæslu til þess að forðast komu óeirðarseggja til landsins. Hann hefur þá sakað stjórnarandstöðuna um að reyna að sölsa undir sig völd í Hvíta-Rússlandi.