Erlent

Aftur tapar Trump í skattskýrslumálinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump á fundi með landsambandi bandarískra lögreglumana.
Donald Trump á fundi með landsambandi bandarískra lögreglumana. EPA/Anna Moneymaker

Alríkisdómari í Manhattan hafnaði í morgun málatilbúnaði Bandaríkjaforseta sem hefur því verið gert að láta skattagögn sín af hendi. Fastlega er þó búist við því að Donald Trump muni áfrýja málinu sem gæti þannig aftur endað á borði Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Saksóknarar í New York kröfðust skattskýrslna forsetans til átta ára með stefnu frá endurskoðunarfyrirtækinu Mazars USA haustið 2019. Krafan tengist rannsókn þeirra á því hvort að Trump og fyrirtæki hans hafi brotið lög þegar þau endurgreiddu Michael Cohen, fyrrverandi lögmanni Trump, vegna þagnargreiðslna hans til klámmyndaleikkonu sem sagðist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump.

Krafan fór dóm en forsetinn taldi sig njóta algerrar friðhelgi fyrir sakamálarannsókn meðan hann sæti í embætti. Þeirri skýringu var fyrst hafnað fyrir alríkisdómstól og síðar fyrir Hæstarétti.

Það gaf Trump og lögmannaliði hans færi á að hafna kröfunni á öðrum forsendum, sem þau ákváðu að gera um leið og niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir í síðasta mánuði. Nú skyldi kröfu saksóknarans Cyrus Vance í New York um aðgang að skattagögnunum vera hafnað á þeim forsendum að hún væri of almenn. Saksóknarinn væri þar að auki á pólitískri vegferð gegn forsetanum.

Victor Marrero, alríkisdómari á Manhattan, hafnaði hins vegar þessum rökum. Þó svo að saksóknari færi fram á gögn frá forsetanum þýddi það ekki sjálfkrafa að það væri til marks um fjandskap af hans hálfu. Dómarinn sagði jafnframt að ef hann myndi fallast á kröfu forsetans um að láta málið niður falla myndi það samsvara því að hann væri að vernda forsetann gegn rannsókn. Fyrir vikið gætu mál gegn honum fyrst og því væri frávísun eða niðurfelling „friðhelgi í sauðagæru“ (e. immunity through a backdoor).

Gert er ráð fyrir að Trump og lögmenn hans muni áfrýja niðurstöðunni.


Tengdar fréttir

Sak­sóknarar með gögn frá Deutsche bank um fjár­mál Trump

Deutsche bank afhenti saksóknurum í New York skjöl um fjármál Donalds Trump Bandaríkjaforseta og fyrirtækis hans í tengslum við sakamálarannsókn í fyrra. Tilraunir saksóknaranna til að fá skattskýrslur forsetans afhentar benda til þess að rannsókn á fjármálum hans sé umfangsmeiri en talið var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×