Guðmundur Benediktsson hóf kornungur glæstan feril knattspyrnumanns og var í hópi hinna fremstu á Íslandi þar til meiðsli settu strik í reikninginn. Nú síðustu ár hefur stjarna hans skinið skært í sjónvarpi, með einstökum lýsingum á fótboltaleikjum, og svo sem þáttastjórnandi ekki síst í hinum geysi vinsæla viðtalsþætti Föstudagskvöld með Gumma Ben.
Telma Lucinda Tómasson vissi nákvæmlega hver væri besti maðurinn til þess að fara með Gumma í fyrsta útreiðatúrinn, Sóli Hólm.
Treysti ekki hestum
Íþróttakempan Gummi Ben lætur sér fátt fyrir brjósti brenna, en þegar kemur að hestum bregst honum kjarkurinn. En þá kemur Sóli Hólm til skjalanna, enda vanur hestum frá blautu barnsbeini. Telma Tómasson og Sóli ákveða að bjóða Gumma á bak hjá Sólhestum, hestaleigu sem pabbi Sóla rekur.„Það sem er best við Gumma er að lappirnar á honum eru þannig að það er eins og hann hafi verið á hestbaki síðan hann fæddist, verið á feitri meri,“ segir Sóli áður en þeir byrja.
„Mér líður ekki vel satt að segja. Ég treysti ekki þessum dýrum,“ sagði Gummi en skipti svo á skoðun eftir að hann var kominn af stað.
„Þetta er reyndar þægilegra en ég hélt. Ég hélt ég myndi ekki ráða neitt við neitt. Að allir hestar væru eins. Bara bilaðir.“Sóli leiðréttir Gumma snarlega og segir að flestir hestar séu hinir ljúfustu. Að auki sé hann í byrjendaferð, á byrjendahesti, á byrjendahraða. „Þú værir í innanfótarsendingum ef þetta væri fótbolti,” útskýrir hann.

Stefnan tekin á Ólympíuleikana
Gummi var svo fljótur að ná sér í sjálfstraust í hestamennskunni og sagði við Sóla:„Ég held að ég geti orðið íslandsmeistari, jafnvel heimsmeistari.“
Hann lætur ekki þar við sitja og setur sér háleitt markmið þegar þeir ræða um hestaíþróttina og hindrunarstökk á Ólympíuleikunum.
„Það er ógeðslega flott. Ég horfi yfirleitt á það ef ég lendi á því; þeir eru að stökkva yfir á tíma og svona. Það er ógeðslega flott. Ég ætla að fara í það. Ég ætla á Ólympíuleika.“
