Lífið

Númeraplatan KOV-19 vekur athygli

Jakob Bjarnar skrifar
Dhyanjith Padmanabhan, eigandi bílsins, segir engan hafa haft orð á því að bílnúmerið geti talist óheppilegt.
Dhyanjith Padmanabhan, eigandi bílsins, segir engan hafa haft orð á því að bílnúmerið geti talist óheppilegt.

Ekki er örgrannt um að þjóðin sé komin með kórónuveiruna á sinnið. Og er farin að sjá Covid-19 sjúkdóminn í hverju horni. Þannig rak einn vegfaranda í rogastans þegar hann sá bílnúmeraplötu þar sem á stendur: KOV-19.

Guðmundur Franklín athafnamaður deilir mynd sem tekin var af skut bílsins og telur þetta heldur óheppilega bílnúmeraplötu.

Eigandi bílsins, Dhyanjith Padmanabhan framleiðslustjóri og þjónn á Austur-Indíafjelaginu hló þegar Vísir hafði samband við hann til að grennslast fyrir um málið. Dhyanjith segir þetta einskæra tilviljun, hann hafi keypt bílinn notaðan og þessi plata hafi einfaldlega verið á bílnum.

Dhyanjith segir engan hafa haft orð á því við sig að þetta bílnúmer megi heita óheppilegt í ljósi þess faraldurs sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Honum þykir þetta skondið. Dhyanjith hefur verið búsettur á Íslandi núna í sjö ár, kemur frá Indlandi, og segir þetta orðið gott núna. Þau séu ánægð. En það hafi tekið tíma sinn að venjast Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×