Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Tindastóll 82-88 | Stólarnir svöruðu fyrir sig

Andri Már Eggertsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson og hans menn unnu í kvöld.
Baldur Þór Ragnarsson og hans menn unnu í kvöld. vísir/bára

Tindastóll vann í kvöld 88-82 sigur á Þór í Þorlákshöfn á gamla heimavelli þjálfarans Baldurs Þórs Ragnarssonar, í þriðju síðustu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta.

Bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda í kvöld upp á framhaldið að gera. Tindastóll hafði tapað fyrir botnliði Fjölnis í síðustu umferð og var ansi mikilvægt fyrir liðið að vinna í kvöld ætlaði liðið að halda sér í 3 sæti.

Þór Þorlákshöfn héldu í vonina fyrir leik að ná 8 sæti deildarinnar og koma sér í úrslitakeppnina en sá möguleiki er úr sögunni eftir úrslit kvöldsins. Leikurinn endaði 82 - 88 Tindastól í vil.

Bæði lið voru heldur lengi í gang til að byrja með. Jafnræði var með liðunum til að byrja með í fyrsta leikhluta. Tindastóll nær síðan góðu áhlaupi, Tindastóll hitti vel fyrir utan þriggja stiga línuna og voru yfir í allri baráttu inn í teig.

Tindastóll voru fljótlega í öðrum leikhluta komnir í tólf stiga forystu. Gegnum gangandi var leikurinn mjög kaflaskiptur og tók við frábær kafli hjá Þór. Emil Karel Einarsson hitti vel í áhlaupi Þórs ásamt því spilaði Þórs liðið góða vörn og enduðu þeir á að vinna 2 leikhluta með 10 stigum og var hálfleiks staðan 40 - 38 heimamönnum í vil.

Bæði lið komu vel stemmd inn í seinni hálfleik og skiptust liðin á stigum framan af þriðja leikhluta. Þór Þorlákshöfn voru komnir sjö stigum yfir um miðjan 3 leikhluta sem endaði með að Baldur þjálfari Tindastóls tók leikhlé. Eftir leikhléið kom furðulegur kafli hjá báðum liðum bæði í töpuðum boltum og furðulegum ákvörðunum sóknarlega. Undir lok 3 leikhluta fékk Axel Kárason sína fimmtu villu og hafði því lokið leik.

Þór Þorlákshöfn voru fimm stigum yfir þegar síðasti fjórðungur hófst og var allt sem benti til að lokaspretturinn yrði jafn og spennandi. Tindastóll spiluðu frábærlega lunga af síðasta fjórðung, Stólarnir voru frábærir á báðum endum vallarins. Tindastóll hlóð í 19 - 0 kafla og var því nokkuð ljóst að um útisigur var að ræða. Þórsarar settu þó ekki alveg árar í bát og minnkuðu muninn í aðeins fjögur stig en það var orðið og endaði leikurinn í 82 - 88 sigri Tindastóls.

Afhverju vann Tindastóll?

Frábær fjórði leikhluti Tindastóls gerði út um leikinn. Varnarleikur Tindastóls var meiriháttar í fjórða leikhluta þar sem Þór Þorlákshöfn komst fyrst á blað í fjórða leikhluta þegar 3 mínútur og 30 sekúndur voru eftir af leiknum. 

Hverjir stóðu upp úr?

Deremy Geiger var góður í liði Tindastóls, Deremy Geiger fór fyrir sínu liði sóknarlega og endaði hann leikinn með 23 stig, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Jaka Brodnik átti góðan leik í liði Tindastóls, Jaka Brodnik átti á köflum auðvelt með að finna sér svæði nálægt körfunni og gera auðveldar körfur, hann endar leikinn með 18 stig og 8 fráköst.

Í liði Þórs voru þeir Jarome Frink og Emil Karel bestir. Jarome Frink endaði leikinn með 26 stig og var Emil Karel heitur fyrir utan þriggja stiga línuna þar sem hann hitti úr fimm þristum og endaði á að skila 17 stigum.

Hvað gekk illa

Hvernig Þór Þorlákshöfn byrjaði fjórða leikhluta fer seint í sögubækurnar. Sóknarleikur Þórs í þeim kafla var alveg afleiddur sem endaði með að þeir skoruðu ekki stig í 6 og hálfa mínútu sem er ansi dýrt þegar þú byrjar leikhlutan með 5 stiga forystu.

Hvað er framundan

Nú fer senn að styttast í úrslitakeppni og eru aðeins tveir leikir eftir af deildarkeppninni þetta tímabilið.

Þór Þorlákshöfn mæta Keflavík á Sunnubrautinni eftir slétta viku.

Tindastóll eiga heimaleik fyrir norðan á móti ÍR.

Baldur: Við bitum frá okkur í kvöld

Eftir að Tindastóll tapaði óvænt fyrir Fjölni í síðustu umferð var þjálfari liðsins mjög ánægður með að fá leik í sömu viku.

Ég er mjög ánægður með frammistöðuna í dag, gott að vinna leik og fá menn til að bíta frá sér og vera vel grimmir.” sagði Baldur Þór Ragnarsson.

Fyrri hluti leiks var hægur og ekki mikill rythmi í okkar leik. Síðan smellur vörnin og það kemur meiri hraði í sóknina og þá var erfitt að eiga við okkur” bætti Baldur við.

Tindastóll náði 19 - 0 kafla í fjórða leikhluta sem gerði Þórsurum mjög erfitt fyrir varnarlega. Baldur var gríðalega sáttur með frammistöðu sinna manna í þeim kafla sérstaklega varnarlega en pirraði sig samt á að þeir hentu boltanum frá sér og gáfu Þór sín fyrstu stig í fjórða leikhluta á hálf gerðu silfurfati.

Friðrik Ingi: Ákveðinn sál í því að við gáfumst ekki upp

Í fjórða leikhluta kemur bakslag hjá okkur þar sem sjálfstraustið, krafturinn og áræðnin sem hafði einkennt okkur allan leikinn hvarf þarna um stund. Við lögðum upp með ákveðna hluti varnarlega þar sem þeir eru erfiðir við að eiga og eru með mikið af fjölhæfum leikmönnum. Ég var ánægður með það og var allt að ganga einsog við lögðum upp með”. Sagði Friðrik Ingi Rúnarsson.

Þór Þorlákshöfn hafa gert mikið af því í vetur að eiga hræðilega kafla sem tapa fyrir þá leikjum. Friðrik var afar súr með að sjá sitt lið enn og aftur vera með pálmann í höndunum en fá ekkert fyrir sinn snúð þegar upp er staðið.

Friðrik var þó jákvæður bæði með að Þór spilaði leikinn ágætlega framan af og undir lok leiks gáfust þeir ekki upp þó svo að það vantaði smá heppni og tíma á klukkuna til að þeir gætu klórað í bakkan og fengið eitthvað úr þessum leik. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira