Fjórtán ríki greiða atkvæði í forvali Demókrata fyrir bandarísku forsetakosningarnar í dag. Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, og Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður eru sigurstranglegastir.
Kosningaspá tölfræðivefsins FiveThirtyEight sýnir þessa stöðu. Sanders er talinn sigurstranglegastur í sjö ríkjum og Biden sex. Þeir eru svo álíka líklegir í Texas. Auk ríkjanna fjórtán fer fram forval á landsvæðinu Ameríska Samóa. Þar eru Biden og Sanders einnig taldir jafnsigurstranglegir.
Auðjöfurinn Mike Bloomberg, sem hefur varið hundruðum milljóna dala úr eigin vasa í kosningabaráttuna, og Elizabeth Warren öldungadeildarþingmaður teljast hvergi sigurstranglegust.
Frambjóðendahópurinn hefur minnkað nokkuð frá því Biden vann í Suður-Karólínu á laugardag. Tom Steyer athafnamaður, Amy Klobuchar öldungadeildarþingmaður og Pete Buttigieg borgarstjóri eru hætt.
Klobuchar og Buttigieg lýstu yfir stuðningi við Biden. Enn er of snemmt að segja hvaða áhrif þetta hefur á forvalið. Þó er ljóst að fjarvera þessara þriggja frambjóðenda gerir það líklegra að Bloomberg og Warren nái yfir fimmtán prósenta þröskuldinn í fleiri ríkjum, og uppfylli þannig skilyrði fyrir því að vinna sér inn fulltrúa á landsfund Demókrata.
Það eru þeir fulltrúar sem sjá formlega um að útnefna frambjóðanda. Keppst er um þriðjung allra landsfundarfulltrúa í dag og gætu línurnar verið farnar að skýrast enn frekar þegar niðurstöður liggja fyrir í nótt. Fyrstu ríkin til að kynna niðurstöður munu væntanlega gera það upp úr miðnætti.