Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Vissi Viðar ekki hver staðan var?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Undir lok leiks Tindastóls og Fjölnis í Domino's deild karla í gær tók Viðar Ágústsson þá undarlegu ákvörðun að brjóta á Róberti Sigurðarsyni þegar staðan var jöfn, 80-80.

Róbert setti fyrra vítið niður og klikkaði svo viljandi á því seinna. Leiktíminn rann út og Fjölnismenn fögnuðu afar óvæntum sigri, 80-81.

Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds skildu hvorki upp né niður í Viðari og þeirri ákvörðun hans að brjóta á Róberti.

„Viðar, hvað varstu að gera drengur?!“ spurði Benedikt Guðmundsson forviða.

Sérfræðingarnir veltu fyrir sér hvort Viðar hafi ekki vitað hver staðan í leiknum var.

„Hann var greinilega eini maðurinn sem vissi ekkert hvað var að gerast inni á vellinum. Það fórnuðu allir höndum,“ sagði Teitur Örlygsson.

„Stigataflan á Króknum er sú stærsta á Íslandi. Það hlýtur einhver að hafa öskrað á hann. Var einhver á bekknum sem klúðraði einhverju?“ bætti Teitur við.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×