Enski boltinn

Solskjær segir að De Gea sé besti markvörður í heimi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Gea gerði slæm mistök sem kostuðu mark í upphafi leiks Manchester United gegn Everton.
De Gea gerði slæm mistök sem kostuðu mark í upphafi leiks Manchester United gegn Everton. vísir/getty

Þrátt fyrir mistökin gegn Everton stendur Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, þétt við bakið á markverðinum David de Gea.

Spánverjinn gerði slæm mistök sem kostuðu mark í leiknum í gær. Á 3. mínútu ætlaði de Gea að sparka frá marki sínu. Það tókst ekki betur en svo að hann þrumaði boltanum í Dominic Calvert-Lewin og þaðan fór boltinn í markið.

De Gea var væntanlega nokkuð létt þegar Bruno Fernandes jafnaði fyrir United 31. mínútu. Lokatölur á Goodison Park, 1-1.

„Hann átti erfitt uppdráttar á köflum á síðasta tímabili en hefur verið virkilega góður í vetur. Ég treysti David hundrað prósent,“ sagði Solskjær eftir leikinn í gær.

Skömmu eftir mistökin í marki Everton varði De Gea vel frá Calvert-Lewin. Undir lok leiks varði hann svo frá Gylfa Þór Sigurðssyni.

„David bætti upp fyrir mistökin og varði frá Gylfa. Mér finnst David vera besti markvörður í heimi,“ sagði Solskjær um De Gea sem hefur gert sjö mistök sem hafa kostað mörk frá upphafi síðasta tímabils. Enginn markvörður hefur gert fleiri.



United er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 42 stig, þremur stigum á eftir Chelsea sem er í 4. sætinu.

Næsti leikur United er gegn Derby County í ensku bikarkeppninni á fimmtudaginn kemur.


Tengdar fréttir

Keane skammaði Gylfa

Fyrrverandi fyrirliði Manchester United lét Gylfa Þór Sigurðsson heyra það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×