Skoðun

Af hverju er leyft að veiða dýr í hættu?

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar

Sem þingmaður tala ég ekki eingöngu um verðbólgu og vexti. Ég tala einnig um dýr, og ekki síst um dýravernd. Ég hef látið mig varða velferð villikatta, upplýst þjóðina um blóðmerahald hrossa og vakið athygli á umfangsmiklum veiðum á eina raunverulega landnema Íslands, íslenska refnum en um 6-7.000 refir eru drepnir árlega.

Núverandi ríkisstjórn er ein af þeim fáum í heiminum sem leyfa veiðar á næststærsta dýri jarðar en langreyður er í útrýmingarhættu sé litið til heims-válista. Þessi sömu stjórnvöld eru að skoða hvort heimila eigi veiðar á selategundum, þar með talið á landsel sem er í „bráðri útrýmingarhættu“ hér á landi enda hefur honum fækkað um 80%.

15 fuglategundir eru bæði á válista og á veiðilistum

Í vikunni barst mér svar frá umhverfisráðherra við skriflegri fyrirspurn minni um veiðar á fuglum á „válistum“. Þar kemur fram að umhverfisráðherra leyfir veiðar á 15 fuglategundum sem eru á skilgreindum válista yfirvalda sem þýðir að þær eru í hættu. Þar með talið á krummanum sem hefur fækkað mikið en um 2-3.000 hrafnar hafa verið drepnir árlega undanfarin 10 ár. Þessi árlega veiði er talin vera vel yfir 20% af heildarstofni hrafnsins. Samkvæmt stjórnvöldum má þó drepa hrafn allt árið sem verður að teljast mjög gagnrýnisvert í ljósi þess að hann er á válista þessara sömu stjórnvalda. Lundi er sömuleiðis talinn vera í „bráðri hættu“ en samt voru tæplega 26.000 lundar veiddir 2018.

Af hverju finnst þessum stjórnvöldum eðlilegt að heimila veiðar á dýrum á válistum? Hvar er hið græna og sjálfbæra í því? Umhverfisvernd á ekki aðeins að snúast að vernda grjót og urð heldur einnig um að vernda hið fábreytilega dýralíf Íslands.

Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×