Lífið

Þóttust þurfa að bjarga fé úr Heimakletti í miðju eldgosi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Á þriðja degi eldgossins árið 1973. Heimaklettur til vinstri.
Á þriðja degi eldgossins árið 1973. Heimaklettur til vinstri. Mynd/Ingvar Friðleifsson.

„Ég sagði nú einhversstaðar í viðtali að ég hefði logið mig til Eyja, ásamt fleirum,“ segir Adólf Sigurgeirsson járnsmiður, einn af Eyjamönnunum sem settust að í Grindavík eftir gos, í upprifjun í þættinum Um land allt á Stöð 2. 

Margir Eyjamanna áttu erfitt með að sætta sig við takmarkanir sem yfirvöld settu á ferðir til Vestmannaeyja eftir að eldgosið hófst þann 23. janúar 1973. Þegar Adólf og félögum var synjað um fararleyfi datt þeim ráð í hug til að snúa á Almannavarnir.

Adólf Sigurgeirsson ásamt syni sínum, Kjartani.Stöð 2/Ólafur Ásgeir Jónsson.

„Að láta vita af því að við þurfum að fara upp í Heimaklett og bjarga fénu sem er uppi í Heimakletti. Það sé ekki hægt að hafa það þar í þessu öskufalli og þessum ósköpum. Það þurfi að ná fénu ofan af Heimakletti,“ segir Adólf. 

Eftir stuttan fund í kjallara lögreglustöðvarinnar í Reykjavík komu ráðamenn Almannavarna fram með lausnina. Þyrla frá hernum skyldi fengin til að skjóta féð. 

„Okkur fannst það nú lítil björgun.“ Og á endanum fengu Adólf og félagar leyfi en aðeins til að stoppa í tvær klukkustundir á Heimaey til að sækja féð.

Horft í átt að Heimakletti þann 25. janúar 1973, á þriðja degi gossins. Stór hluti húsanna á myndinni átti síðar eftir að hverfa undir hraun.Mynd/Úr filmu Ingvars Friðleifssonar.

„En í lok sögunnar, þá hefur aldrei verið fé í Heimakletti á veturnar. Og eins og þú veist kannski, ef þú hefur komið til Eyja; það tekur meira en klukkutíma að fara upp í Heimaklett og aftur til baka. Hvað þá að smala fénu þar,“ segir Adólf og hlær en framhald sögunnar má heyra í spilaranum hér fyrir neðan. 

Þátturinn verður endursýndur á Stöð 2 í dag, laugardag, klukkan 15.45. 

Fleiri sögur af Eyjamönnum og eldgosinu má sjá hér fyrir neðan, þar á meðal fjóra þætti sem Stöð 2 gerði árið 2013 í tilefni 40 ára afmælis gossins:


Tengdar fréttir

Væri gaman að sjá barnavagninn eftir 40 ár

"Ég hefði nú gaman af því að sjá barnavagninn. Hann á að vera þarna," sagði Guðrún Ingibergsdóttir í þættinum "Um land allt" á Stöð 2 í kvöld, þar sem fjallað var um eldgosið á Heimaey.

Sárið fyrst núna að gróa eftir 40 ár

Eyjamenn gerðu upp Heimaeyjargosið og lýstu söknuði vegna byggðarinnar og landsins sem hvarf undir hraun og ösku í þættinum "Um land allt"´á Stöð 2 í kvöld.

Eyjamenn lýsa því hvernig var að vakna upp við eldgos

Þegar eldsprungan opnaðist á Heimaey þann 23. janúar fyrir fjörutíu árum í austurjaðri byggðarinnar þá var fjarlægðin frá næstu íbúðarhúsum litlu meiri en vegalengdin yfir Arnarhól í Reykjavík. 5200 manns í Vestmannaeyjum upplifðu þar einhverja ógnþrungnustu nótt Íslandssögunnar. Þennan atburð ætlar Stöð 2 næstu sunnudagskvöld að rifja upp í þættinum "Um land allt" með hjálp Eyjamanna sem stóðu í eldlínunni en fyrsti þátturinn var sýndur í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×