Fótbolti

15 dagar í Rúmeníuleikinn: Ísland og Rúmenía hafa farið á jafnmörg stórmót á síðustu átján árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson fer fyrir fögnuði íslenska landsliðsins eftir sigur á Englandi á EM 2016.
Aron Einar Gunnarsson fer fyrir fögnuði íslenska landsliðsins eftir sigur á Englandi á EM 2016. Getty/Dan Mullan
Íslenska karlalandsliðið er tveimur skrefum frá því að tryggja sig inn á þriðja stórmótið í röð en til þess þarf liðið bæði að slá út Rúmena í undanúrslitunum og vinna úrslitaleik umspilsins. Rúmenar voru ekki með á HM í Rússlandi 2018 en landslið þjóðanna hafa farið á tvö stórmót hvor á síðustu átján árum.

Ísland tekur á móti Rúmeníu á Laugardalsvellinum í undanúrslitaleik í umspili um laust sæti á EM 2020 og sigurvegarinn kemst í hreinan úrslitaleik um sæti á EM. Vísir telur niður í leikinn með því að skoða betur þennan stærsta heimaleik í sögu íslenska landsliðsins eða líta til baka á söguleg tengsl þjóðanna á knattspyrnuvellinum.

Íslenska fótboltalandsliðið þreytti frumraun sína á stórmóti á EM í Frakklandi sumarið 2016 en þá voru Rúmenar einnig með. Rúmenska landsliðið hafði eins og það íslenska misst af HM tveimur árum áður eftir tap í umspili Hm 2014 en komst á EM með því að ná öðru sæti í sínum riðli í undankeppni EM 2016.

Þetta Evrópumót í Frakklandi var fyrsta stórmót Rúmena frá árinu EM 2008 og aðeins annað stórmótið síðan að liðið komst í átta liða úrslit á EM í Belgíu og Hollandi sumarið 2000.

Frá og með árinu 2002 hafa því Ísland og Rúmenía komist inn á jafnmörg stórmót þótt að íslensku strákarnir hafi ekki náð inn því fyrsta fyrr en á EM 2016.

Íslenska liðið er aftur á móti langt á undan í bæði sigrum og mörkum skoruðum. Á fyrrnefndum tveimur síðustu stórmótum Rúmena tókst þeim ekki að vinna leik og skoruðu aðeins samtals 3 mörk í 6 leikjum.

Á fyrstu tveimur stórmótum sínum tókst íslenska landsliðinu að vinna tvo leiki og skora samtals 10 mörk í átta leikjum.

Stórmót íslenska og rúmenska landsliðsins frá 2002:

Rúmenía á EM 2008 - Sat eftir í riðlinum (12. sæti)

Ísland á EM 2016 - 8 liða úrslit (8. sæti)

Rúmenía á EM 2016 - Sat eftir í riðlinum (19. sæti)

Ísland á HM 2018 - Sat eftir í riðlinum (28. sæti)

Sigrar og mörk íslenska og rúmenska landsliðsins á stórmótum frá 2002:

Rúmenía á EM 2008 - 0 sigrar og 1 mark

Ísland á EM 2016 - 2 sigrar og 8 mörk

Rúmenía á EM 2016 - 0 sigrar og 2 mörk

Ísland á HM 2018 - 0 sigrar og 2 mörk

Ísland: 2 sigrar og 10 mörk

Rúmenía: 0 sigrar og 3 mörk



Ísland og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli 26. mars. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en sérstakur upphitunarþáttur fyrir leikinn verður á dagskrá 16. mars á Stöð 2 Sport.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×