Marcelo Bielsa hefur gert frábæra hluti hjá Leeds og ef marka má forráðamenn félagsins skrifar hann væntanlega undir nýjan samning við félagið á næstu dögum eða vikum.
Leeds er komið upp í deild þeirra bestu í fyrsta skipti í sextán ár og þeir munu hefja endurkomu sína í úrvalsdeildinni á því að mæta ensku meisturunum í Liverpool á Anfield þann 12. september.
Angus Kinnear, framkvæmdastjóri Leeds, segir að Bielsa sé við það að framlengja samning sinn við félagið en hann sé það upptekinn að undirbúa liðið fyrir næstu leiktíð að það hafi ekki gefist tími í það.
„Hann er mjög, mjög nálægt því [að skrifa undir nýjan samning],“ sagði Kinnear.
„Áskorunin með Marcelo er að hann er mjög uptekinn varðandi tímabilið sem er framundan. Hann er á æfingasvæðinu alla daga að undirbúa liðið.“
„Hann er í greiningarvinnu og ég þarf bara að finna tækifærið til þess að setja pappírana fyrir framan hann og láta hann skrifa undir.“