Erlent

Navalny kominn til Þýskalands

Samúel Karl Ólason skrifar
Navalny fluttur úr flugvél á flugvelli í Berlín í morgun.
Navalny fluttur úr flugvél á flugvelli í Berlín í morgun. AP/Michael Kappeler

Alexei Navalny, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, er lentur í Þýsklandi. Hann var fluttur þangað eftir að hafa fallið í dá og segja aðstandendur hans það hafa gerst vegna þess að eitrað hafi verið fyrir honum. Aðstandendum Navalny var í fyrstu meinað að flytja hann frá borginni Omsk í Síberíu.

Læknarnir í Omsk sögðu ástand hans of slæmt til að flytja hann en aðstandendur hans brugðust reiðir við. Bæði treysta þau ekki yfirvöldum í Rússlandi og sögðust viss um að markmiðið væri að bíða þar til öll ummerki eitrunar væru farin úr blóði Navalny.

Það var ekki fyrr en þýsku læknarnir skoðuð Navalny og lýstu því yfir að hann væri nógu hraustur til að flytja sem það var leyft, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Navalny, sem er 44 ára gamall og einn fyrirferðamesti andstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, missti meðvitund í flugi frá Síberíu til Moskvu. Hann féll fljótt í dá og var hann sagður í stöðugu en alvarlegu ástandi.

Læknar í Omsk hafa veitt mismunandi upplýsingar um ástand Navalny og ástæðu þess að hann sé í dái. Aðstandendur hans segjast fyrst hafa fengið þær upplýsingar að hættulegt eitur hafi fundist í blóði hans en skömmu seinna sögðu læknar opinberlega að ekkert eitur hefði fundist og sögðu mögulegt að blóðsykur Navalny hefði lækkað mjög hratt og þess vegna væri hann í dái.

Í gærkvöldi sagði svo annar læknir að ekki væri komnar niðurstöður úr eiturefnaprófum, samkvæmt frétt Moscow Times.

Stuðningsmenn hans og aðstandendur eru fullvissir um að rússnesk stjórnvöld hafi eitrað fyrir honum.

Kira Yarmysh, talskona Navalny, sagði á Twitter í nótt að baráttan um líf hans væri einungis að hefjast. Mikil vinna væri fyrir höndum en fyrstu skrefin hefðu verið tekin.


Tengdar fréttir

Heimila flutning Navalny til Þýskalands

Rússneskir læknar hafa samþykkt að Alexei Navalny, sem leitt hefur stjórnarandstöðuna í Rússlandi, verði fluttur til Þýskalands.

Eiginkona Navalny biðlar til Pútín

Hópur þýskra lækna er nú á sjúkrahúsinu þar sem Alexei Navalny er í dái. Hópurinn ferðaðist til Rússlands með sjúkraflugi til að sækja Navalny og flytja hann til Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×