Innlent

Þörf á upplýsingum um markmið sóttvarna

Samúel Karl Ólason skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að afleiðingar hertra reglna á landamærunum frá því síðustu viku, muni birtast af fullum þunga á næstunni. Fólk í ferðaþjónustu sé dofið, vonsvikið og í áfalli.

Hún segir þörf á frekari upplýsingum um markmið sóttvarnaaðgerða.

„Við þurfum einnig að vita hvernig ákvarðanir eru teknar, af hverju og hvaða sjónarmið og útreikningar leiddu til þeirra. Til að þjóðin verði með á skútunni og sé tilbúin til að leggjast áfram á árarnar, þá þarf skilningur að vera fyrir hendi. Mér finnst því miður að nú ríki alger upplýsingaóreiða, sem svo aftur leiðir til sundurlyndis, reiði og ásakana á milli einstakra hópa í samfélaginu,“ skrifaði Bjarnheiður á Facebook í morgun.

Bjarnheiður segir einnig að alls ekki sé hægt að tala lengur um að allir séu saman í þessu.

Þá veltir Bjarnheiður upp hvert höfuðmarkmiðið varðandi sóttvarnarleg og hagræn sjónarmið. Hver áætlunin sé.

Hvort það sé að loka landamærum til lengri tíma og útrýma veirunni úr samfélaginu. Að fletja út kúrvuna og dreifa úr álagi á heilbrigðiskerfið. Að læra að lifa með veirunni og sætta okkur við takmarkanir án þess að slökkva á hagkerfinu, eða eitthvað annað.

„Þetta þurfum við einfaldlega að fá að vita,“ segir Bjarnheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×