Sport

Katrín Tanja: Ég vil þessa stórkostlegu tilfinningu sem er ekki hægt að falsa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir á æfingu með þjálfara sínum Ben Bergeron.
Katrín Tanja Davíðsdóttir á æfingu með þjálfara sínum Ben Bergeron. Mynd/Instagram

Íslenska CrossFit stjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur lært mikið á sínum merkilega keppnisferli og ekki síst þegar kemur að því andlega. Hún hefur líka sterkar skoðanir á því hvaða sjálfstraust er best fyrir keppniskonu eins og hana.

Katrín Tanja Davíðsdóttir er stórt nafn í CrossFit heiminum eins og við vitum og hefur hrifið marga með boðskap sínum sem áhrifavaldur á samfélagsmiðlum.

Katrín Tanja hefur talið niður í daginn í dag ásamt fólkinu á bak við Comptrain.co en þjálfarinn hennar Ben Bergeron stofnaði fyrirtækið. Samvinna Ben Bergeron og Katrínar hefur gengið mjög vel og eins við höfum sýnt á hér á Vísi þá er hann óhræddur vð að nota sérstakar aðferðir við að undirbúa Katrínu fyrir óvænt mótlæti í keppni.

Comptrain birti viðtal við Katrínu Tönju á dögunum þar sem hún ræddi sína sýn á sjálfstraust sem er öllu íþróttafólki gríðarlega mikilvægt í keppni. Það má sjá það hér fyrir neðan.

„Ég vildi tala við ykkur í dag um sjálfstraust og hvað það þýðir fyrir mig. Eitt það mikilvægasta sem ég hef lært á mínum keppnisferli er besta skilgreiningin á sjálfstrausti fyrir mig sjálfa og hvernig það gengur best fyrir sig,“ sagði Katrín Tanja Davíðsdóttir.

„Það er ekki sjálfstraustið sem segir: Ég er best eða ég mun vinna. Þú hefur ekki stjórn á því heldur getur þú aðeins gert þitt besta. Þú veist ekkert hvað hinir keppendurnir hafa gert og átt engan möguleika á að stjórna því,“ sagði Katrín Tanja.

„Sjálfstraustið sem ég elska og besta tilfinningin sem ég finn þegar ég mæti á CrossFit leikana er þegar ég hef trú á mér sjálfri og mínum hæfileikum. Það er sjálfstraustið sem kemur frá því að ég lagði mikið á mig í undirbúningnum og að ég sé eins vel undirbúin og ég gat verið,“ sagði Katrín Tanja

„Það er sjálfstraust út frá því að ég veit að ég er tilbúin í allt sem bíður mín og það er sjálfstraust sem þú getur ekki falsað. Það er aðeins ég sem veit það hvort ég sé rétt undirbúin og ég fæ þetta sjálfstraust af því að ég unnið fyrir því,“ sagði Katrín Tanja

„Þú getur falsað ákveðið sjálfstraust en ég vil sjálfstraust sem varð til af því að ég lagði mig fram á hverjum degi, ég borðaði rétt og gaf allt mitt á hverri æfingu. Þá getur þú treyst því að þú sért eins vel undirbúin og möguleiki var á. Því fylgir stórkostleg tilfinning en ég get ekki falsað hana,“ sagði Katrín Tanja að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×