Innlent

Hóta þvingunaraðgerðum lagist lyktin ekki í Grafarvogi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grafarvogsbúum var lítill hlátur í huga í síðustu viku þegar mikla ólykt lagði yfir hverfið.
Grafarvogsbúum var lítill hlátur í huga í síðustu viku þegar mikla ólykt lagði yfir hverfið. Íslenska gámafélagið

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir að Íslenska gámafélagið hafi verið krafið um tafarlausar úrbætur vegna ólyktar sem íbúar í Grafarvogi í Reykjavík hafa kvartað yfir undanfarið. Verði fyrirtækið ekki við því verði það beitt þvingunarúrræðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu eftirlitsins til fjölmiðla. Þar segir að kvartanir íbúa í Grafarvogi vegna lyktarinnar hafi verið staðfestar og Íslenska gámafélaginu gert ljóst að ástandið sé óviðunandi.

„Heilbrigðiseftirlitinu er að fullu ljóst ástandið á svæðinu og óþægindi íbúa vegna þess. Öllum tiltækum ráðum verður beitt til að ástandinu linni,“ segir í tilkynningunni.

Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, sagði í samtali við RÚV á sunnudaginn að ólyktina mætti rekja til þess þegar moltuhaugum væri snúið við. Það sé gert einu sinni í mánuði og íbúar í Grafarvogi finni fyrir lyktinni sé vindáttin óhagstæð.

Félagið leiti leiða til að koma í veg fyrir að lyktin berist. Fyrirhugða er að fyrirtækið flytji úr Gufunesi á Esjumela 1 fyrir 1. júlí á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×