Heilbrigðisráðherra hefur gert breytingu á tveggja metra reglunni svokölluðu. Áður þurftu rekstraraðilar að tryggja tveggja metra bil á milli einstaklinga sem ekki deildu heimili. Frá og með föstudeginum 28. ágúst verður miðað við að bilið sé á milli einstaklinga sem ekki séu í nánum tengslum.
Ekki er tilgreint frekar hvað heyri til náinna tengsla. Fram hefur komið í máli sóttvarnalæknis að tveggja metra reglan sé fyrst og fremst hugsuð varðandi fólk sem þekki ekki hvort annað. Almennt þurfi fólk að reyna að viðhafa tveggja metra regluna.
Í tilkynningu frá sóttvarnalækni og lögreglunni á dögunum kom fram að tveggja metra reglan væri sett á þar sem hún sé ein af grunnstoðum sýkingavarna og að nánd milli fólks auki áhættuna á að fá smit.
Hvað veiruna varði sem veldur COVID-19 sjúkdómnum hafi komið í ljós að einn metri á milli einstaklinga minnki líkurnar á smiti fimmfalt, og að fyrir hvern metra til viðbótar tvöfaldis líkurnar á að forða fólki frá smiti. Á þeim grunni hafi reglur og leiðbeiningar um fjarlægðarmörk verið settar víða um heim.
Í auglýsingu ráðherra sem tekur gildi á föstudaginn og gildir til 10. september er leikhúsunum jafnframt gefin heimild til að hefja æfingar að nýju á sama hátt og leyfst hefur í íþróttum.