Viðskipti innlent

Kópur ekki hluti af ASÍ

Atli Ísleifsson skrifar
Drífa Snædal er forseti Alþýðusambandsins.
Drífa Snædal er forseti Alþýðusambandsins. Vísir/Baldur

Kópur er ekki hluti af Alþýðusambandi Íslands og er ekki aðili að neinum kjarasamningnum, VIRK, Bjargi, orlofssjóðum, fræðslusjóðum eða sjúkrasjóðum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem send hefur verið á fjölmiðla. Segir að nýtt stéttarfélag, Kópur, hafi verið auglýst og sé auglýsingum einkum beint að Pólverjum sem starfa á Íslandi.

„Í kynningu á félaginu er látið í veðri vaka að það hafi aðgang að öllum þeim gæðum og þjónustu við félagsmenn sem íslensk verkalýðshreyfing hefur byggt upp um áratuga skeið og jafnvel að félagið sé tengt Alþýðusambandi Íslands. Þetta er rangt,“ segir í yfirlýsingunni

Hefur ekki gert neina kjarasamninga

Engin tengsl séu milli ASÍ og Kóps og ASÍ vitanlega hafi Kópur ekki gert neina kjarasamninga.

„Kópur er ekki með fræðslusjóð til að greiða menntun, er ekki með sjúkrasjóð fyrir þá sem verða veikir í lengri tíma, á ekki aðild að Bjargi íbúðafélagi sem býður lægri leigu og húsnæðisöryggi, er ekki aðili að VIRK starfsendurhæfingu og á ekki orlofshús. Mögulegir félagsmenn í Kópi myndu ekki njóta neinna ef þessum réttindum né hafa aðgang að lögfræðilegri og annarri faglegri aðstoð sem launafólki býðst almennt hjá sínum stéttarfélögum.

ASÍ hvetur til að þessum upplýsingum sé dreift sem víðast og komið í veg fyrir að launafólk afsali sér óafvitandi réttindum sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp um áratuga skeið,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×