Erlent

Smituðum fjölgar mest á Indlandi, átján daga í röð

Samúel Karl Ólason skrifar
Skimun á Indlandi hefur verið aukin til muna.
Skimun á Indlandi hefur verið aukin til muna. AP/Ajit Solanki

Yfirvöld á Indlandi tilkynntu í dag að 60.975 hafi greinst smitaðir af Covid-19 frá því í gær. Það er mesta fjölgunin í heiminum en sú hefur verið raunin á Indlandi síðust átján daga í röð. Alls hafa rúmlega 3,1 milljón manna smitast í Indlandi og rúmlega 58 þúsund dáið, svo vitað sé.

Indland er því í þriðja sæti ríkja heimsins yfir fjölda smitaðra, á eftir Brasilíu og Bandaríkjunum.

Í samtali við Reuters segir Giridhar Babu, sóttvarnasérfræðingur, að það kæmi honum ekki á óvart ef Indland tæki fram úr Brasilíu og Bandaríkjunum varðandi fjölda smitaðra. Sérstaklega með tilliti til þess hve mun fleiri Indverjar eru.

Dauðsföll hafa þó reynst fá, hlutfallslega séð. Dánartíðnin er 1,84 prósent, samanborið við 3,4 prósent á heimsvísu. Þetta er þó miðað við opinber gögn sem fanga mögulega heildarmyndina ekki að fullu.

Rajesh Bhushan, heilbrigðisráðherra Indlands, sagði í dag að skimun fyrir Covid-19 hafi aukist til muna á Indlandi og samhliða þeirri aukningu hefur hlutfall þeirra sem greinst hafa með nýju kórónuveiruna minnkað, samkvæmt Times of India.

Sömuleiðis hafi þeim sem þurfa á öndunarvél að halda farið fækkandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×