Fótbolti

Fyrrum leikmaður Man. Utd hneig niður í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daley Blind liggur í grasinu í gær eftir að hana hnigið niður í leik með Ajax.
Daley Blind liggur í grasinu í gær eftir að hana hnigið niður í leik með Ajax. Getty/Gerrit van Keulen

Óskemmtileg staða kom upp í æfingaleik Ajax og Herthu Berlin í gær þegar leikmaður Ajax hneig niður í miðjum leik.

Leikmaðurinn sem um ræðir er varnarmaðurinn Daley Blind sem margir muna eftir frá dögum hans sem einum af leikmönnum Manchester United.

Það uppgötvaðist í desember 2019 að Daley Blind glímdi við hjartavandamál þegar hann svimaði í leik Ajax á móti Valencia í Meistaradeildinni.

Blind tók sér þá frí frá boltanum en snéri aftur til baka í febrúar og þá var búið að græða hjartatæki í hann.

Erik Ten Hag, stjóri Ajax, sagði við hollenska miðla að það væri í lagi með Blind. Hann tók hann skiljanlega strax af velli en Blind fór ekki á sjúkrahús. „Honum líður vel núna. Við þurfum að rannsaka þetta betur,“ sagði Ten Hag.

Daley Blind spilaði í fjögur tímabil með Manchester United frá 2014 til 2018. United seldi hann síðan til Ajax í júlí 2018. Blind vann enska bikarinn, enska deildabikairnn og Evrópudeildina með Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×