Innlent

Beðnir um að vera heima vegna gruns um smit í Mela­skóla

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Melaskóla.
Úr Melaskóla. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður Melaskóla í Reykjavík er í sóttkví eftir að maki hans reyndist smitaður af kórónuveirunni. Átta starfsmenn til viðbótar hafa verið beðnir um að vera heima í dag.

Þetta kemur fram í bréfi Björgvins Þórs Þórhallssonar skólastjóra til foreldra barna sem stunda nám í skólanum.

Í bréfinu segir að viðkomandi starfsmaður bíði þess að komast í skimun og fleiri starfsmenn eru á leið í sóttkví. RÚV hefur eftir Björgvini Þór að um átta starfsmenn sé að ræða.

„Skólinn grípur til sambærilegra aðgerða og viðhafðar voru síðastliðið vor, þ.e. að hólfa niður og takmarka samneyti fullorðinna eins og kostur er. Börnum með einhvern lasleika á að halda heima og foreldrar eru vinsamlegast beðnir um að koma ekki inn í skólann,“ segir í bréfi Björgvins Þórs til foreldra, en einhverjir starfsmenn skólans fóru í sóttkví í mars síðastliðins vegna smits.

Í morgun greindi Fréttablaðið frá því að starfsmaður Ingunnarskóla hafi greinst með kórónuveirusmit. Skólahald mun þar haldast óbreytt, en þrír starfsmenn skólans hefur verið gert að sæta sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×