Innlent

Starfsmaður Borgarsels sýktur af kórónuveirunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Sýnatökur hjá Heilsugæslunni á Höfuðborgarsvæðinu
Sýnatökur hjá Heilsugæslunni á Höfuðborgarsvæðinu Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Starfsmaður í Borgarseli greindist með Covid-19 síðastliðinn fimmtudag. Starfsmaðurinn var síðast í vinnu, þriðjudaginn 18. ágúst, var þá algjörlega einkennalaus og viðhafði hann allar þær sóttvarnir sem krafa er gerð um á vinnustaðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Borgarseli en þar er rekin dagþjálfun fyrir skjólstæðinga með heilabilun.

Föstudaginn, 21. ágúst, fjölluðu starfsmenn sóttvarnalæknis og rakningateymis um málið á samráðsfundi hjúkrunarheimila. Í framhaldi af þeim fundi var Borgarseli lokað, þ.e. föstudaginn 21. ágúst og mánudaginn 24. ágúst. Húsnæðið var sótthreinsað og unnið að skipulagningu í samvinnu við Sóttvarnalækni og Almannavarnir.

Þrír skjólstæðinganna voru taldir meira útsettir en aðrir sem og fjórir starfsmenn sem verið höfðu í nálægð við starfsmanninn í meira en 15 mínútur. Ákveðið var að þeir sem voru mest útsettir væru heima í sóttkví í 14 daga. Búið er að skima alla þá sem sendir voru í sóttkví og reyndust þeir allir neikvæðir. Aftur verður skimað hjá þessum hópi í lok sóttkvíar, 1. september nk. og eftir þörfum.

Í samráði við sóttvarnalækni, rakningarteymið og aðstandendur skjólstæðinga Borgarsels var ákveðið að opna á ný fyrir þá skjólstæðinga sem sjúkdóms síns vegna eiga erfitt með að vera einir heima allan daginn. Upp hefur komið smit innan þess hóps og því verið að vinna í að finna aðrar lausnir fyrir þennan viðkvæma hóp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×