Innlent

Mönnun á leikskólum borgarinnar vonbrigði í ljósi ástandsins á vinnumarkaði

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Helgi Grímsson er sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson er sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. EGILL AÐALSTEINSSON

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir vonbrigði að ekki hafi tekist að ráða í öll stöðugildi á leikskólum borgarinnar þegar atvinnuleysi er að aukast.

Enn hefur ekki verið ráðið í 76 grunnstöðugildi í 63 leikskólum á vegum Reykjavíkurborgar. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að mönnun gangi þó þokkalega.

„Það vantar samt sem áður talsvert af stöðugildum enn hjá okkur. Það eru auðvitað vonbrigði miðað við stöðuna á atvinnumarkaði,“ sagði Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Fjörutíu leikskólar eru ýmist fullmannaðir eða vantar í hálft til tvö stöðugildi. Slíkt hefur takmörkuð áhrif á starfssemina. Á fjóra leikskóla vantar fleiri en fjögur stöðugildi, sem getur haft töluverð áhrif.

„Það getur haft þær afleiðingar að inntaka nýrra leikskólabarna tefjist og það er náttúrulega mjög miður en við reynum eins og við mögulega getum að lágmarka það,“ sagði Helgi.

Hann hélt að ráðningar myndu ganga betur í ljósi ástandsins á atvinnumarkaði í kjölfar faraldurs kórónuveirunnar. Almennt atvinnuleysi var 7,9 prósent í júlí og hefur farið vaxandi.

Í ljósi þess að vöntun er á starfsfólki þurfi að slaka á menntunarkröfum.

„Það er bara það sem við neyðumst til að gera því það skiptir miklu máli að manna leikskólanna til að við getum boðið upp á leikskólaþjónustuna. Það skiptir máli að hafa fólk með faglegan bakgrunn,“ sagði Helgi.

Hvað með grunnskólana?

„Þeir standa mjög vel það er 98% ráðningarhlutfall komið þar og þá er verið að leita að einstaka skólaliða og stuðningsfulltrúum,“ sagði Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×