Sport

Moli að trufla Söru á mikilvægum æfingum fyrir heimsleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir með Björgvini Karli Guðmundssyni og Mola sínum. Sara og Björgvin Karl eru á fullu að undirbúa sig fyrir heimsleikana þessa dagana.
Sara Sigmundsdóttir með Björgvini Karli Guðmundssyni og Mola sínum. Sara og Björgvin Karl eru á fullu að undirbúa sig fyrir heimsleikana þessa dagana. Vísir/Vilhelm

Það eru ekki allir í kringum íslensku CrossFit drottninguna Söru Sigmundsdóttur sem átta sig á mikilvægi æfinganna þessa dagana.

Sara Sigmundsdóttir er á fullu í lokaundirbúningi sínum fyrir heimsleikana í CrossFit sem fara fram í næsta mánuði.

Moli að gera erfiða lyftu enn erfiðari.Skjámynd/Instagram

Sara hefur átt frábært tímabil og fær nú tækifæri til að vinna stóra titilinn sem hana vantar á ferilskrána.

Það verður vissulega erfitt að eiga við Tiu Clair Toomey, heimsmeistara síðustu þriggja ára, en Sara veitti henni hörku keppni þegar þær mættust í Miami áður en kórónuveirufaraldurinn tók yfir heiminn.

Það eru samt ekki allir í kringum íslensku CrossFit drottninguna Söru Sigmundsdóttur sem átta sig á mikilvægi æfinganna þessa dagana.

Heimsleikarnir fara nú fram í tvennu lagi því fyrri hlutinn verður fjarkeppni þar sem keppendur munu gera æfingarnar undir ströngu eftirliti í sínum heimabæ. Fimm efstu í karla- og kvennaflokki tryggja sér síðan sæti í úrslitakeppninni þar sem barist verður um heimsmeistaratitlana í CrossFit.

Sara sýndi myndband á Instagram síðunni þar sem sjá má hana lyfta þungum lóðum en fær ekki frið frá Mola sínum.

Sara eignaðist hvolpinn Mola fyrr á þessu ári og hann fylgir henni hvert sem hún fer. Sara grínast með myndbandið þar sem Moli sést meðal annars hoppa upp á hana í miðri lyftu.

„Moli er ekkert sérstaklega stressaður fyrir komandi heimsleika. Hann vill bara leika,“ skrifaði Sara við myndbandið sem má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×