Erlent

Fjarlægður úr vél Ryan Air mínútum fyrir brottför eftir staðfestingu á smiti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var á leið til Pisa með vél Ryan AIr.
Maðurinn var á leið til Pisa með vél Ryan AIr. EPA-EFE/TOMS KALNINS

Tveir farþegar voru fjarlægðir úr vél Ryan Air á Stansted flugvellinum í London í gær, skömmu fyrir flugtak. Annar þeirra hafði nokkrum mínútum fyrr fengið skilaboð um að hann hefði greinst með kóronuveiruna.

Á myndbandi sem tekið var upp í flugvélinni má sjá starfsmenn klædda sérstökum hlífðargöllum fjarlægja mennina tvö úr flugvélinni.

Flugvélin var á leið til Pisa í Ítalíu, en í frétt Guardian segir að nokkrum mínútum fyrir brottför, þegar allir farþegar voru komnir um borð, hafi annar farþeginn fengið skilaboð frá smitrakningarteymi í Bretlandi um að hann hafi greinst með kórónuveiruna.

Hann og ferðafélagi hans voru færðir á sérstakt svæði á flugvellinum þar sem þeir voru skoðaðir af læknum, auk þess sem að starfsmenn flugvallarins sótthreinsuðu sætin sem mennirnir sátu í og svæðið þar í kring.

Í yfirlýsingu Ryan Air segir að talið sé að lítil smithætta hafi verið af manninum þar sem hann hafi fylgt öllum reglum og verið með grímu allan tímann á flugvellinum og um borð í vélinni, auk þess sem að allir aðrir farþegar hafi einnig verið með andlitsgrímu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×