Íslenski boltinn

„Ekki ánægður með ákvörðun þeirra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Hamrén hefði viljað nýta krafta Gylfa Þórs Sigurðssonar, Jóhanns Berg Guðmundssonar og Alfreðs Finnbogasonar gegn Englandi og Belgíu.
Erik Hamrén hefði viljað nýta krafta Gylfa Þórs Sigurðssonar, Jóhanns Berg Guðmundssonar og Alfreðs Finnbogasonar gegn Englandi og Belgíu. vísir/vilhelm

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, er ekki ánægður með að þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason skyldu ekki gefa kost á sér fyrir leikina gegn Englandi og Belgíu í Þjóðadeildinni.

Auk þeirra verða Aron Einar Gunnarsson, Ragnar Sigurðsson og Rúnar Már Sigurjónsson fjarri góðu gamni í leikjunum tveimur.

„Við erum án sex leikmanna sem ég hefði viljað hafa. Það eru ólíkar ástæður fyrir því. Ég ákvað að Raggi yrði ekki með og ég held það sé betra fyrir hann og okkur að verði áfram hjá FCK og haldi áfram að æfa. Félagið hans Arons vildi ekki sleppa honum. Allir vita hversu miklu máli landsliðið skiptir fyrir hann og hann gerði allt til að fá sig lausan. Svo meiddist Rúnar Már á kálfa í vikunni og verður frá næstu vikurnar,“ sagði Hamrén í samtali við Vísi.

Gylfi, Jóhann og Alfreð ákváðu hins vegar að gefa ekki kost á sér í landsliðið að þessu sinni.

„Vegna stöðu þeirra hjá sínum félagsliðum völdu þeir að koma ekki,“ sagði Hamrén.

En er hann svekktur út í þremenningana fyrir að gefa ekki kost á sér í landsliðið?

„Að sjálfsögðu er ég ekki ánægður með það. Ég vildi hafa þá en þeir hafa sínar ástæður, voru heiðarlegir og ég skil þá. En ég er ekki ánægður með ákvörðun þeirra,“ svaraði Hamrén.

Hann viðurkennir að fjarvera lykilmanna setji strik í reikninginn, sérstaklega þar sem leikurinn mikilvægi gegn Rúmeníu í umspili um sæti á EM er í næsta mánuði.

„Við erum án sex leikmanna sem ég vildi hafa. Það er ekki óskastaða en svona er þetta og var svona í síðustu Þjóðadeild og undankeppni EM. Við höfum ekki fengið alla leikmenn sem við vildum. En þú getur ekki hugsað of mikið um það,“ sagði Hamrén.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×