Hvíta húsið er hætt að reyna að halda aftur af útbreiðslu Covid-19 í Bandaríkjunum. Þess í stað er markmiðið að vernda viðkvæma hópa, koma á einhvers konar eðlilegu ástandi og bæta ímynd Donald Trump, forseta varðandi faraldurinn. Þannig verður dregið úr skimun og staðfestum smitum fækkað. Einnig stendur til að tengja færri dauðsföll við Covid-19.
Þetta kemur fram í frétt Politico sem hefur þetta eftir fimm heimildarmönnum sem koma að þessu verkefni.
„Þetta snýr að því að forsetinn vill færa athyglina frá skimun,“ sagði Repúblikani sem hefur ráðlagt Hvíta húsinu varðandi málið. Hann sagði að Hvíta húsið vildi að tilfellum hætti að fjölga eins og þau hafa gert.
Bandaríkin hafa þurft að eiga við um 40 þúsund ný tilfelli á dag, svo vitað sé. Rúmlega sex milljónir hafa smitast og rúmlega 185 þúsund hafa dáið. Nýsmituðum hefur þó farið fækkandi í Bandaríkjunum að undanförnu.
Embættismenn í Hvíta húsinu segja breyttar áherslur í skimun vegna þess að meiri þörf sé á henni meðal aldraðra og nemenda. Trump hefur þó ítrekað haldið því fram að eina ástæða þess að svo margir hafi greinst með Covid-19 í Bandaríkjunum, sé að skimun sé svo umfangsmikil. Hann hefur einnig haldið því fram að skimunin sé hvergi umfangsmeiri. Hvorugt er rétt.
Þá er frétt Politico í takt við annan fréttaflutning vestanhafs. Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna breytti til að mynda viðmiðum ríkisins varðandi skimun fyrir Covid-19, á þá leið að ekki þurfi að framkvæma prófa á manneskju sem hafi verið í samskiptum við aðila sem vitað er að er smitaður. Áður hafði stofnunin sagt að skima þyrfti slíka aðila, jafnvel þó viðkomandi sýndu ekki einkenni.
Sjá einnig: Breytingar á viðmiðum í Bandaríkjunum um skimun sagðar koma niður á smitrakningu
Washington Post sagði svo nýverið frá því að nýr ráðgjafi Trump í sóttvarnamálum, sem hefur enga reynslu af sóttvörnum, hafi ýtt á að Bandaríkin leggi áherslu á að ná svokölluðu „hjarðónæmi“ gegn Covid-19. Ríkisstjórnin hefur þegar tekið skref í þá átt.
Sá ráðgjafi, Scott Atlas, sagði á mánudaginn að það væri óþarfi að skrá fólk sem sýndi ekki einkenni og væri ekki í áhættuhópum. Frekar ætti að vernda viðkvæma hópa.
Heilbrigðissérfræðingar Í Bandaríkjunum segjast undrandi yfir áherslubreytingunum. Nú þegar tilfellum fari fækkandi sé ekki rétti tíminn til að skipta um stefnu. Þeir hafa sömuleiðis kvartað hástöfum yfir mísvísandi skilaboðum úr Hvíta húsinu frá því faraldurinn hófst.
Einn viðmælandi Politico, sem var lengi einn af æðstu embættismönnum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, CDC, sagði að ríkisstjórn Trump hefði aðeins eitt markmið. Það væri að tryggja forsetanum endurkjör í nóvember. Allar áherslur stofnana Bandaríkjanna sem að faraldrinum koma virtust þjóna því markmiði.