Lífið

Fylgj­endurnir hrannast inn eftir færslu Billi­e Eilish

Sylvía Hall skrifar
Billie Eilish var greinilega mjög hrifin af flutningi Laufeyjar.
Billie Eilish var greinilega mjög hrifin af flutningi Laufeyjar. Skjáskot/Getty

Söngkonan Laufey Lín Jónsdóttir slökkti á símanum í dag eftir að myndband hennar fór að vekja meiri athygli á Instagram. Það er kannski engin furða að athyglin hafi verið mikil þar sem Billie Eilish, ein vinsælasta poppstjarna heimsins um þessar mundir, deildi myndbandinu á sínum persónulega aðgangi.

Líkt og Vísir greindi frá í gær deildi Eilish ábreiðu Laufeyjar af laginu My Future sem gefið var út í lok júlímánaðar. Laufey segist ekki hafa búist við því að söngkonan myndi sjá ábreiðuna, og hvað þá deila henni, en það hafi verið mikill heiður engu að síður.

Frá því að Eilish deildi myndbandinu hafa rúmlega ellefu þúsund manns byrjað að fylgja Laufeyju á Instagram. Laufey segir athyglina skemmtilega, en líkt og áður sagði ákvað hún að slökkva á símanum þegar mest var.

„Ég er búin að slökkva á símanum mínum. Þetta er mjög spennandi allt en ef ég skoða þetta of mikið pæli ég of mikið í þessu,“ sagði Laufey í samtali við Reykjavík síðdegis í dag.

Þegar þetta er skrifað er Laufey með rúmlega 58 þúsund fylgjendur en hún var áður með 47 þúsund. Hún segir stóran hluta vera Íslendingar, sem hún fagnar, enda hafi hún lengi stefnt að því að ná betur til samlanda sinna.

„Billie náði að vekja athygli Íslendinganna,“ segir Laufey.

Laufey er nú í London þar sem hún er að taka upp plötu og hefja tónlistarferil. Hún segir færslu Eilish vera mikla viðurkenningu og mögulega opna á ný tækifæri. Einhverjir Íslendingar ættu þó að þekkja til hæfileika hennar, enda hefur hún bæði tekið þátt í þáttunum Ísland Got Talent og The Voice Iceland. Þá tók hún einnig þátt í Leitinni að Jólastjörnunni í tvígang.

Á meðal þeirra sem hafa lýst yfir hrifningu sinni er tónlistarmaðurinn Auður og segir hana vera með hæfileikari tónlistarmönnum sem hann hefur unnið með.

Hér að neðan má sjá myndbönd frá þátttöku Laufeyjar í Ísland Got Talent, The Voice Iceland og Leitinni að Jólastjörnunni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.