Eitt stærsta vændishús Evrópu er farið á hausinn af völdum kórónuveirufaraldursins.
Vændishúsið Pascha í þýsku borginni Köln er heilar tíu hæðir og hefur verið rekið í borginni um árabil. Um 120 vændiskonur starfa við húsið auk annars starfsfólks sem telur um sextíu manns.
Þegar kórónuveiran skall á Evrópu var gripið til þess ráðs að banna vændisstarfssemi sökum smithættu og nú segir eigandinn að ekki sé annað í stöðunni en að segja starfsfólkinu upp.
Hann gagnrýnir þýsk stjórnvöld fyrir að gefa ekki skýr svör um hvenær von sé á afléttingu vændisbannsins og fullyrðir að vændisiðnaðurinn hafi ekki legið í dvala, heldur hafi hann færst undir yfirborðið að nýju þannig að ríkið njóti ekki skattanna af honum eins og á við um Pascha, sem var að fullu lögleg starfsemi.