Ökumaður bíls sem lenti í hörðum árekstri á Reykjanesbraut í október 2018 hafði verið vakandi alla nóttina áður en slysið varð og sennilegt er að hann hafi sofnað við aksturinn. Farþegi bílsins sem lést í slysinu var ekki spenntur í öryggisbelti og telur Rannsóknarnefnd samgönguslysa að hann hefði líklega lifað slysið af, hefði hann verið spenntur í belti.
Skýrsla Rannsóknarnefndar um slysið, sem varð undir morgun þann 28. október 2018, var birt undir lok vikunnar. Ökumaðurinn ók bifreiðinni, sem var af gerðinni Peugeot, yfir á rangan vegarhelming við Tjarnarvelli þar sem hún lenti í hörðum árekstri við Kia-bifreið úr gagnstæðri átt. Enginn farþegi var í Kia-bifreiðinni en ökumaður hennar hlaut talsverða áverka.
Farþeginn í Peugeot-bílnum var ekki í öryggisbelti og kastaðist fram á mælaborðið við áreksturinn. Við það hlaut hann banvæna höfuðáverka. Ökumaður bílsins var spenntur í belti og hlaut áverka á hné og brjóstkassa. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa ekið yfir á rangan vegarhelming og telur nefndin líklegt að hann hafi sofnað undir stýri. Hann sagðist hafa vakað alla nóttina áður.
Rannsóknarnefndin telur mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti. Þá sé brýnt að ökumenn forðist að aka þreyttir.
„Eins ættu allir að vera á verði og gera athugasemdir við ferðaáætlanir vina og ættingja ef sýnt er að þær geri ekki ráð fyrir nægjanlegri hvíld ökumanns,“ segir í skýrslu nefndarinnar.