María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, kveðst ekki hafa séð nein gögn sem bendi til þess að fullyrðing Tryggva Björns Stefánssonar í Kastljósi síðastliðinn fimmtudag um að gæðakerfi leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins standist ekki viðmið Evróputilskipana. Krabbameinsfélagið segir að með þessu hafi óvissu sem ummælin ollu verið eytt.
Í fréttaflutningi af málinu hefur Tryggvi, sem er krabbameinslæknir og var fulltrúi Sjúkratrygginga í gæðaeftirliti og gæðaskráningu í leitarstarfi Krabbameinsfélagsins, verið kallaður fulltrúi SÍ. Það segir María ekki standast skoðun.
„Þessi aðili er ekki fulltrúi Sjúkratrygginga Íslands og talar ekki fyrir okkar hönd. Hann tók þátt í ákveðnu sérfræðistarfi sem aðkeyptur ráðgjafi á sínum tíma og okkur var ekki kunnugt um þessa umfjöllun fyrr en við sáum hana á skjánum og þetta var ekki í neinu samráði við okkur.“
Þá segist María ekki hafa séð gögn sem staðið geti undir fullyrðingu Tryggva.
Hún segir þá að áfram verði skimað hjá Krabbameinsfélaginu til áramóta.
„Við höfum treyst Krabbameinsfélaginu til að annast þessa mikilvægu þjónustu og yfirvöld hafa óskað eftir því að Krabbameinsfélagið geri það áfram til áramóta.“
Vinna áfram með landlækni
Í tilkynningu á vef Krabbameinsfélagsins kemur fram að með þessari yfirlýsingu hafi Sjúkratryggingar Íslands eytt óvissu sem ummæli Tryggva Björns ollu.
Þá segir að félagið hafi sent SÍ, að ósk síðarnefndu stofnunarinnar, staðfestingu á að starfsemi Leitarstöðvar uppfyllti kröfur varðandi mönnun, vinnuferla, búnað og annað.
„Stjórn félagsins fagnar því að ummæli Tryggva Björns Stefánssonar valdi ekki lengur efa um hæfi félagsins til að framkvæma skimanir og í því ljósi heldur starfsemi Leitarstöðvarinnar áfram með óbreyttu sniði.
Krabbameinsfélagið vinnur áfram með Embætti landlæknis sem hefur hið alvarlega atvik sem upp kom á Leitarstöð til skoðunar,“ segir einnig í tilkynningunni.