Ísland mætir Belgíu ytra annað kvöld í Þjóðadeild UEFA í fótbolta. Einn leikmanna Belgíu hefur nú greinst með kórónuveirusmit en leikurinn mun þó ekki vera í hættu.
Brandon Mechele, sem var á varamannabekknum hjá Belgum í 2-0 sigrinum gegn Danmörku í Kaupmannahöfn á laugardag, er hinn smitaði. Smitið greindist þegar belgíska liðið fór allt í smitpróf í gær.
Belgíska knattspyrnusambandið greindi frá þessu í kvöld, og að Mechele hefði nú yfirgefið belgíska hópinn.
UPDATE: @BMechele44 left the group. Yesterday, he had a positive covid-19 test.
— Belgian Red Devils (@BelRedDevils) September 7, 2020
Í frétt RTBF í Belgíu er haft eftir Philippe Rosier, yfirmanni heilbrigðismála hjá belgíska knattspyrnusambandinu, að leikurinn við Ísland sé ekki í hættu. Mechele sé kominn í einangrun en aðrir geti tekið þátt í leiknum og verði svo teknir í próf aftur eftir leikinn.