Níu evrópskir og bandarískir lyfjarisar hafa heitið því að fylgja í hvívetna vísindalegum viðmiðum við þróun bóluefnis vegna Covid-19 og að freistast ekki til þess að flýta þróun þess á kostnað gæða.
Gríðarleg eftirvænting er eftir bóluefni vegna Covid-19 og eru fjölmörf fyrirtæki og vísindastofnanir að vinna hörðum höndum að því að þróa bóluefni sem virkar gegn Covid-19 en sé á sama tíma öruggt að nota, þannig að það skapi ekki fleiri vandamál en það á að leysa.
Fyrirtækin sem um ræðir eru á meðal stærstu lyfjaframleiðenda heims en þau eru Pfizer, GlaxoSmithKline, AstraZeneca, Johnson & Johnson, Merck & Co, Moderna, Novavax, Sanofi og BioNTech.
Talsmenn fyrirtækjana segja samkomulagið sögulegt en því hefur verið velt upp að sum fyrirtæki, stofnanir og ríki geti freistast til þess að gefa út bóluefni án þess að gengið sé úr skugga um það sé nægjanlega öruggt, svo hægt sé að leysa heimsbyggðina úr viðjum kórónuveirunnar.