Erlent

Skutu ein­hverfan pilt eftir að móðirin hafði óskað að­stoðar

Atli Ísleifsson skrifar
Móðir drengsins segist hafa haldið að lögregla myndi beita lágmarksvaldi þegar þeir mættu á staðinn.
Móðir drengsins segist hafa haldið að lögregla myndi beita lágmarksvaldi þegar þeir mættu á staðinn. Getty

Lögreglumenn í Glendale í Utah-ríki í Bandaríkjunum skutu margsinnis þrettán ára, einhverfan pilt eftir að móðir hans hafði hringt í neyðarlínuna og óskað aðstoðar vegna andlegra veikinda piltsins.

Í frétt BBC er haft eftir móðurinni, Golda Barton, að ástand piltsins, sem er með Asperger-heilkenni, sé alvarlegt en hann dvelur nú á sjúkrahúsi með skotsár í maga, öxl, þvagblöðru og ökkla.

Móðirin segist hafa haldið að lögregla myndi beita lágmarksvaldi þegar þeir mættu á staðinn. Hafi hún greint starfsmanni neyðarlínunnar frá því að flytja þyrfti son sinn á sjúkrahús þar sem hann hafi fundið fyrir miklum aðskilnaðarkvíða eftir að hún hafi snúið aftur til vinnu í fyrsta sinn í um ár.

„Ég sagði að hann væri ekki vopnaður, hann væri ekki með neitt, yrði bara reiður og byrji að kalla og öskra,“ segir Barton. „Hann er krakki, sem vill fá athygli og veit ekki hvernig hann á að hafa stjórn á sér.“

Keith Horrocks hjá lögreglunni í Salt Lake City segir að málið sé nú til rannsóknar hjá lögreglu. Hann segir að lögregla hafi verið kölluð út vegna vopnaðs pilts sem sýndi af sér ógnandi tilburði. Horrocks bætti við að pilturinn hefði ekki virst vopnaður þegar lögregla mætti á vettvang. Hafi hann svo verið skotinn þegar hann reyndi að flýja af vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×