Umfjöllun og viðtöl: FH - Stjarnan 3-0 | Heima­menn hefndu fyrir deildar­tapið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Jóhann Helgason skoraði eitt mark og lagði upp annað í sigri FH á Stjörnunni.
Þórir Jóhann Helgason skoraði eitt mark og lagði upp annað í sigri FH á Stjörnunni. vísir/daníel

FH er komið undanúrslit Mjólkurbikars karla eftir öruggan 3-0 sigur á Stjörnunni í Kaplakrika í dag. FH-ingar hefndu þarna fyrir tapið sára fyrir Stjörnunni í Pepsi Max-deildinni á dögunum.

Steven Lennon, Ólafur Karl Finsen og Þórir Jóhann Helgason skoruðu mörk FH-inga sem léku virkilega vel í dag og áttu sigurinn skilið.

FH náði forystunni á 24. mínútu. Þórir Jóhann þræddi þá boltann inn fyrir vörn Stjörnunnar á Lennon sem skoraði sitt þrettánda mark í deild og bikar í sumar.

Stjarnan var ekki lakari aðilinn úti á vellinum í fyrri hálfleik en gekk illa að opna vörn FH. Garðbæingar voru þó hársbreidd frá því að jafna á 36. mínútu þegar skot Hilmars Árna Halldórssonar beint úr aukaspyrnu small í stönginni.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks komst FH í 2-0 með frábæru marki. Eftir að Alex Þór Hauksson, fyrirliði Stjörnunnar, tapaði boltanum sneri FH vörn í sókn á örskotsstundu. Björn Daníel Sverrisson átti frábæra sendingu á Hörð Inga Gunnarssonar sem sendi fyrir á Ólaf Karl sem skoraði af stuttu færi gegn sínu gamla liði. Frábær endir á fyrri hálfleik hjá FH en skelfilegur hjá Stjörnunni.

Á 54. mínútu skaut Ólafur Karl úr stöng úr mjög þröngu færi. Þremur mínútum síðar kom Þórir Jóhann FH í 3-0 með skoti beint úr aukaspyrnu þar sem varnarveggur Stjörnunnar klikkaði illilega.

Eftir þetta voru úrslitin ráðin. Um miðjan seinni hálfleik tóku þjálfarar Stjörnunnar, þeir Rúnar Páll Sigmundsson og Ólafur Jóhannesson, sínar helstu kanónur út af.

Fleiri urðu mörkin ekki og fyrsta tap Stjörnunnar í sumar staðreynd. Garðbæingar eru án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum í deild og bikar.

Af hverju vann FH?

Í fyrri hálfleik var leikurinn nokkuð jafn en FH-ingar voru beittari í sínum aðgerðum á síðasta þriðjungnum. Úrslitasendingarnar og fyrirgjafirnar voru mun betri hjá þeim en Stjörnumönnum. Í seinni hálfleik var FH svo mun sterkari aðilinn og kláraði leikinn af öryggi.

FH varðist vel eins og liðið hefur heilt yfir gert síðan Eiður Smári Guðjohnsen og Logi Ólafsson tóku við þjálfun þess og heildarbragurinn á liðinu var góður.

Hverjir stóðu upp úr?

Þórir Jóhann hefur tekið gríðarlega miklum framförum frá síðasta tímabili og spilaði enn og aftur vel í dag. Hann lagði upp fyrsta markið með frábærri sendingu og skoraði svo það þriðja með lúmsku skoti. Ólafur Karl opnaði markareikninginn fyrir FH og virðist finna sig vel sem fremsti maður. Þá var vörn FH virkilega góð og Eggert Gunnþór Jónsson gríðarlega öflugur fyrir framan hana.

Hvað gekk illa?

Stjörnumönnum gekk bölvanlega að skapa sér opin færi gegn sterkri vörn FH-inga og fátt gekk upp hjá fremstu mönnum liðsins. Þá bilaði vörnin illa í nokkur skipti og lykilmenn klikkuðu í mörkum FH. Daníel Laxdal hélt ekki línu í fyrsta markinu, Alex Þór átti skelfilega sendingu í öðru markinu og í því þriðja hljóp Hilmar Árni út úr varnarveggnum.

Hvað gerist næst?

FH fær að vita það í kvöld hverjum þeir mæta í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Næsti leikur þeirra í Pepsi Max-deildinni er hins vegar gegn Breiðabliki í Kaplakrika á sunnudaginn. Næsti deildarleikur Stjörnunnar er einnig á sunnudaginn, gegn KR á Meistaravöllum.

Eiður Smári: Vonandi fáum við góðar fréttir af Jónatan

Eiður Smári var sáttur í leikslok.vísir/stöð 2 sport

Hljóðið var gott í Eiði Smára Guðjohnsen, þjálfara FH, eftir sigurinn á Stjörnunni í Mjólkurbikarnum í dag.

„Á köflum vill maður alltaf meira og ég vil alltaf að við spilum boltanum betur á milli okkar en frammistaðan í heild sinni var frábær,“ sagði Eiður.

En hvað var hann sáttastur með í leik FH-liðsins?

„Við vorum bara tilbúnir í þennan leik. Við unnum návígin og þegar það var pressa á okkur stóðumst við hana vel. Liðsheildin er það sem stendur upp úr í dag,“ svaraði Eiður.

Ólafur Karl Finsen skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH í dag, gegn sínum gömlu félögum í Stjörnunni. Eiður er sáttur með að Ólafur Karl sé kominn á blað fyrir FH.

„Auðvitað. Sem þjálfari vill maður alltaf að framherjarnir sínir skori. Hann var virkilega duglegur og sýnir okkur daglega að hann er að komast í topp stand. Hann verður drjúgur fyrir okkur eins og margir aðrir,“ sagði Eiður.

Jónatan Ingi Jónsson var borinn af velli þegar um 20 mínútur eftir að hafa lent í samstuði.

„Fyrir það fyrsta var hann frábær í leiknum. Það var smá sjokk þegar við sáum hann liggja eftir. Í fyrstu höldum við að þetta hafi verið heilahristingur,“ sagði Eiður.

„Meira er ekki vitað að svo stöddu en vonandi fáum við bara góðar fréttir af honum.“

Rúnar Páll: Vorum betri en FH í fyrri hálfleik

Rúnar Páll var afar svekktur með að vera 2-0 undir í hálfleik gegn FH.vísir/bára

„Það er drullufúlt að detta út úr bikarnum. Ég svekktur með þetta,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, annar þjálfara Stjörnunnar, eftir tapið fyrir FH í dag.

„Mér fannst við spila góðan fyrri hálfleik þrátt fyrir að fá tvö mörk á okkur, tvö mörk sem við gáfum. Í fyrra markinu var Daníel [Laxdal] of seinn út úr rangstöðunni og í öðru markinu gaf Alex [Þór Hauksson] glórulausa sendingu. Það var erfitt að vera 2-0 undir í hálfleik en við vorum staðráðnir í því að reyna að jafna leikinn. Svo fengum við mjög ódýrt mark á okkur úr aukaspyrnu í gegnum vegginn. Þá datt botninn úr þessu. Við gerðum fjórar skiptingar og reyndum að hressa upp á sóknarleikinn og mér fannst það takast ágætlega þótt við höfum ekki náð að skora.“

Stjörnumenn voru síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik, allavega úti á vellinum, en voru samt 2-0 undir að honum loknum.

„Mér fannst við spila vel, vorum hættulegir og betri en FH þótt það sé pínu asnalegt að segja það því við vorum tveimur mörkum undir,“ sagði Rúnar Páll.

„Við ætluðum að jafna leikinn en því miður fengum við á okkur mark úr aukaspyrnunni sem var algjör óþarfi, bæði að dæma hana og svo Hilmar [Árni Halldórsson] að fara úr veggnum. Það er fúlt að vera dottinn úr leik í þessari skemmtilegu keppni.“

Stjarnan hefur nú leikið fjóra leiki í röð án þess að vinna. Þrátt fyrir það hefur Rúnar Páll ekki áhyggjur.

„Þetta er bikarkeppni og síðan mætum við KR á sunnudaginn og gera okkar besta þar,“ sagði þjálfarinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira