„Ég geri þetta rosalega oft, tek með mér einhverja leikmuni þegar ég held ræður. Mér finnst það sérstaklega eiga við í fermingarræðum,“ segir séra Guðbjörg Arnardóttir í samtali við Vísi.
Guðbjörg vakti kátínu fermingarbarna og kirkjugesta í fermingarmessu síðust helgi sem haldin var í Selfosskirkju en Guðbjörg setti upp trúðahárkollu í regnbogalitunum í lok ræðu sinnar til fermingarbarnanna.

„Unglingar eru svo frábært fólk og það er svo mikilvægt að þau fái þau skilaboð frá kirkjunni að þau eigi að elska sig eins og þau eru. Þau eru svo allskonar, eins og regnboginn. Þau hafa sterkar skoðanir og ólíkar, en eru öll jafn mikilvæg,“ segir Guðbjörg og bætir því við að með þessu hafi hún viljað senda þau skilaboð til ungmennanna að þau eigi að standa með sjálfum sér eins og þau eru.
Regnboginn hefur verið áberandi sem tákn fjölbreytileikans og segir Guðbjörg það þó ekki einu ástæðuna fyrir því að hún hafi valið regnbogalitinn.
Mér finnst mikilvægt að unglingar sjáiað þau geti verið ein heild þó svo að þau séu ólík. Regnboginn er fallegur því hann hefur alla þessa ólíku liti. Einnig er regnboginn gamalt trúarlegt tákn og hefur verið notað sem kærleikstákn guðs til mannkynsins. Hann er því ekki bara tákn fjölbreytileika og réttindabaráttu, heldur líka tákn kærleika og samstöðu.
Markmiðið með því að setja upp hárkolluna segir Guðbjörg ekki bara hafa verið það að fá bros á andlitin heldur hafi hún gert þetta í fullri einlægni.
„Krakkarnir brostu auðvitað að þessu athæfi mínu og fannst þetta fyndið, en það er líka alveg í lagi. Unglingar verða oft vandræðalegir þegar fullorðnir gera eitthvað svona en það er allavega ekki eins vandræðalegt eins og þegar foreldrar gera eitthvað svona. Ég hugsa að börnin mín séu fegin að hafa ekki verið í kirkjunni,“ segir Guðbjörg og hlær.