Innlent

Styrkir Píeta-sam­tökin um sex milljónir

Atli Ísleifsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Píeta-samtökunum sex milljónir króna á þessu ári til að efla forvarnastarf samtakanna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að jafnframt muni ráðherra tryggja tólf milljóna króna fjármagn fyrir stöðu verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis út næsta ár.

„Ákvörðun ráðherra er í samræmi við áherslur samráðsfundar embættis landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins 2. september síðastliðinn sem haldinn var með aðilum stofnana og félagasamtaka sem tengjast forvarnastarfi gegn sjálfsvígum. Alþjóðlegur forvarnadagur gegn sjálfsvígum er í dag.

Á samráðsfundinum var rætt um að erfiðleikar fólks í samfélaginu sem tengjast heimsfaraldri og heimskreppu séu vaxandi og ljóst að ástandið sé farið að hafa alvarleg áhrif á geðheilbrigði. Rannsóknir, bæði hérlendar og erlendar sýna einnig fram á þetta. Fundarmenn voru sammála um að nú væri áríðandi að grípa til aðgerða án tafar.

Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi var samþykkt í apríl 2018. Í áætluninni eru tillögur um margvíslegar aðgerðir sem mikilvægt er að hrinda í framkvæmd og fylgja eftir til að sporna við sjálfsvígum hér á landi,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×