Innlent

Leggur til sýnatöku á sjöunda degi í sóttkví

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til að stytta sóttkví með sýnatöku á sjöunda degi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til að stytta sóttkví með sýnatöku á sjöunda degi. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögum sínum um breytt fyrirkomulag um sóttkví innanlands. Hingað til hafa allir þeir sem eru útsettir fyrir smiti verið skikkaðir í 14 daga sóttkví. Hugmyndin væri að stytta sóttkví þannig að sá sem er í sóttkví fari í sýnatöku á sjöunda degi. Verði útkoman neikvæð gæti viðkomandi verið laus úr sóttkví þegar niðurstaðan liggur fyrir.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi Embætti landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag.

Þórólfur ræddi þessa hugmynd í samtali við fréttastofu á þriðjudag.

„Þetta er svona ný hugmynd sem við erum að skoða. Það gæti verið þannig að við gætum stytt sóttkví með sýnatöku. Það er á fyrstu stigunum. Við eigum eftir að ljúka athugum um það,“ sagði Þórólfur.

Fjöldi Íslendinga hefur verið settur í sóttkví frá því faraldurinn hófst í mars, en tæplega 25 þúsund manns hafa lokið sóttkví hér á landi. Til að minnka áhrifin á samfélagið sem sóttkví getur haft er verið að skoða að stytta hana með sýnatöku.

Þórólfur sagði á upplýsingafundinum á mánudag að flestir séu komnir með einkenni 7 – 10 dögum eftir að þeir hafa verið útsettir fyrir smiti. Veiran greinist yfirleitt hjá einstaklingum tveimur til þremur dögum áður en einkenni gera vart við sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×