Gastegund sem gæti verið afurð örvera fannst við rannsóknir á reikistjörnunni Venusi. Vangaveltur hafa lengi verið uppi um að líf gæti mögulega þrifist í efri lögum lofthjúps reikistjörnunnar en þetta er í fyrsta skipti sem mögulegar vísbendingar um líf þar hafa fundist. Alþjóðlegur hópur vísindamanna tilkynnti í dag að hann hefði fundið fyrstu vísbendingarnar um að örverur þrífist í háskýjum á Venusi. Í litrófsmælingu á lofthjúpnum fundu þeir gastegundina fosfín í snefilmagni. Á jörðinni er gasið framleitt og notað í ýmsum efnaiðnaði, til dæmis textíliðnaði og í skordýraeitur. Fosfín, sem er eitrað mönnum, verður líka til sem aukaafurð loftfirrtra örvera á jörðinni. Þær taka upp fosfór úr steinefnum og lífrænu efni, bæta við það vetni og mynda fosfín sem úrgang. Fundur fosfíns á Venusi vekur mönnum þannig von í brjósti um að það gæti verið merki um örverulíf þar. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, segir uppgötvunina gríðarlega spennandi og að áhugi vísindamanna á Venusi komi til með að aukast á næstu árum vegna hennar. „Við viljum auðvitað útiloka allar mögulegar ólífrænar uppsprettur fosfíngassins áður en við ályktum sem svo að það sé af völdum lífs. Við þekkjum engin efnafræðileg ferli í lofthjúpi Venusar sem geta útskýrt gasið og það magn sem það mælist í. Eldvirkni og eldingar hafa sömuleiðis verið útilokaðar,“ segir hann við Vísi. Fosfínsameindir fundust í skýjum hátt í lofthjúpi Venusar. Þær gætu verið vísbending um að örverur svífi um í háloftunum þar.ESO/M. Kornmesser/L. Calçada & NASA/JPL/Caltech Helvískar aðstæður við yfirborðið Uppgötvunin markar tímamót. Venusi svipar að mörgu leyti til jarðarinnar og hefur verið nefnd tvíburasystir hennar. Reikistjörnurnar eru bergreikistjörnur, svipaðar að stærð og á svipuðum slóðum í sólkerfinu. Menn gerðu sér því lengi hugmyndir um að aðstæður á Venusi gætu verið áþekkar jörðinni og því lífvænlegar. Sáu þeir jafnvel fyrir sér að yfirborð Venusar væri þakið fenjum og þar væri að finna einhvers konar skriðdýr. Yfirborð Venusar er þakið þykkum lofthjúpi sem kom framan af í veg fyrir að vísindamenn gætu staðfest þessar tilgátur sínar um umhverfið á nágrannareikistjörnunni. Draumar um líf á Venusi brustu algerlega þegar fyrstu geimförin náðu þangað á 7. áratug síðustu aldar. Í ljós kom umhverfi sem hefur gjarnan verið líkt við helvíti. Venus er einn ólífvænlegasti staðurinn í sólkerfinu okkar. Óðagróðurhúsaáhrif þýða að hitinn við skraufþurrt yfirborðið er yfir 460°C. Loftþrýstingurinn er 92 sinnum meiri en við sjávarmál á jörðinni, sambærilegur við þrýstinginn á 900 metra dýpi í sjónum. Ekkert lífrænt efni á sér viðreisnar von þar. Aðstæðurnar eru svo fjandsamlegar að einu geimförin sem hafa lent á yfirborðinu, sovésku Venera-geimförin á 7., 8. og 9. áratugnum, krömdust eins og gosdósir undan þrýstingnum á skömmum tíma. Venera 13-geimfarið náði takmörkuðum myndum af yfirborði Venusar áður en hitinn, þrýstingurinn og sýran bar geimfarið ofurliði árið 1982.Vísindaakademía Sovétríkjanna Vísindamenn voru þó ekki af baki dottnir. Þeir sáu fyrir sér að líf gæti þrifist í einhverri mynd í skýjum í um fimmtíu til sextíu kílómetra hæð í lofthjúpi Venusar þar sem aðstæður eru mun skaplegri, hitinn á bilinu tuttugu til þrjátíu gráður og loftþrýstingurinn sami og við sjávarmál á jörðinni. Tilgátur voru settar fram að örverur gætu svifið um í háloftunum. Styrkur fósfíns í lofthjúpi Venusar er afar veikur, aðeins um tuttugu sameindir á móti milljarði. Útreikningar vísindamannana nú virðast útiloka tilgátur um að gasið verið til í slíku magni við náttúrulega ferla á reikistjörnunni, þar á meðal að það verði til við efnahvörf vegna sólarljós, það stígi upp frá yfirborðinu, í eldgosum eða við eldingar. Áætlar hópurinn að slíkir ferlar gætu aðeins búið til um tíu þúsundasta hluta þess magns sem þeir sjá í skýjunum. Aftur á móti þyrftu jarðneskar örverur aðeins að starfa á tíu prósent afköstum til að framleiða fosfín í því magni sem er til staðar á Venusi. Þyrftu að þola margfalt súrari aðstæður en á jörðinni Einn galli er þó á gjöf Njarðar. Þrátt fyrir að hitinn í efstu skýjum Venusar sé notalega mollulegur eru þau gallsúr. Þau eru enda að nær öllu leyti úr brennisteinssýru. Clara Sousa Silva frá MIT-háskóla í Bandaríkjunum sem tók þátt í uppgötvuninni, segir að örverur á jörðinni þoli allt að 5% sýrustig í umhverfi sínu. Súr skýin á Venusi eru því ekki beinlínis lífvænlegur staður fyrir örverur eins og við þekkjum þær á jörðinni. Sævar Helgi segir að mögulega örverur á Venusi þyrftu þannig að þola allt annað og fjandsamlegra umhverfi en á jörðinni. Ekki sé þó langt síðan að menn uppgötvuðu hita- og sýrukærar örverur á jörðinni á stöðum þá óraði ekki fyrir að líf gæti þrifist með nokkru móti. „Því meira sem við lærum um sérkennilegt jaðarlíf á jörðinni, þeim mun hugrakkari erum við að velta þeim möguleika að minnsta kosti fyrir okkur að eitthvað mjög óvænt lifi við erfiðar aðstæður annars staðar. Ég held alla vega að við ættum að vera opin fyrir þeim möguleika að þarna úti leynist líf sem þolir aðstæður sem við gætum varla ímyndað okkur,“ segir hann. Örverur á Venusi þyrftu ekki aðeins að þola gríðarlega súrt umhverfi heldur þyrftu þær einnig að hafa einhverja leið til að halda sér á lofti til að verða ekki steikjandi hitanum neðar í lofthjúpnum að bráð. Einnig þyrftu þær að geta staðið af sér vatnsskort án þess að þorna upp og skort á næringarefnum. „Það er heljarinnar áskorun en lífið hefur tilhneigingu til að vera ótrúlega harðgert og koma okkur sífellt á óvart,“ segir Sævar Helgi. Fordæmi eru um að örverur lifi í skýjum á jörðinni, stundum í vatnsdropum en einnig utan þeirra. Þær flytjast upp frá yfirborði jarðar og geta jafnvel orðið kjarnar sem raki í lofthjúpnum þéttist í kringum og verður að úrkomu. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins.Vísir/Baldur Vill senda loftbelgi til frekari rannsókna Frekari rannsókna er þörf til þess að skera úr um hvort að fosfíngasið á Venusi eigi sér lífrænan uppruna. „Við þyrftum að senda loftbelgi til Venusar til að rannsaka skýin betur. Slíkir leiðangrar eru á teikniborðinu og verða vonandi að veruleika í framtíðinni. Við þyrftum að ná í sýni til að finna út hvort það sé skylt lífinu á Jörðinni. Sá möguleiki er fyllilega fyrir hendi að jaðarörveru hafi borist með loftsteinum frá jörðinni til Venusar, eða öfugt. Svo gæti vel verið að þarna væri um að ræða líf sem kviknaði á Venusi,“ segir Sævar Helgi. Vísbendingar eru um að Venus hafi verið mun lífvænlegri hnöttur fyrr í sögu sólkerfisins. Landslagið þar ber þess merki að þar hafi verið haf fljótandi vatns. Talið er að það hafi gufað upp þegar gróðurhúsalofttegundir hrönnuðust upp í lofthjúpi Venusar sem ollu óðahlýnun. Lofthjúpur Venusar nú er að nær öllu leyti úr koltvísýringi. Sævar Helgi segir að þegar aðstæður voru líkari jörðinni á Venusi sé alls ekki útilokað að líf hefði getað kviknað á yfirborðinu og stigið til himna eftir að reikistjarnan breyttist í þann Múspellsheim sem hún er nú til dags. Venus er algerlega hulin þykkum lofthjúpi sem endurvarpar nær öllu sólarljósi aftur út í geim. Engu að síður er hitinn við yfirborðið hærri en í bakaraofni vegna óðagróðurhúsaáhrifa.ESA/C. Carreau Lífið líklega algengt í alheiminum ef það er til á Venusi Fyndu menn örverur á Venusi hefði það verulega þýðingu fyrir hugmyndir manna um líf í alheiminum, að mati Sævars Helga. „Að uppgötva líf, jafnvel þótt það séu „bara“ örverur, væri það einhver stórkostlegasta uppgötvun sögunnar. Við hefðum þá loks svar við spurningu sem hefur mannkynið hefur spurt sig í aldanna rás: Erum við ein? Að tveir hnettir í sólkerfinu okkar skörtuðu lífi myndi benda til þess að líf eigi sennilega fremur auðvelt með að kvikna og þrífast, meira að segja við aðstæður sem eru gerólíkar paradísinni Jörð. Ef svo er, þá er líf líklega mjög algengt í alheiminum,“ segir hann. Undanfarin ár og áratugi hafa stjarnfræðingar fundið þúsundir reikistjarna á braut um fjarlægar stjörnur. Næsta kynslóð sjónauka, bæði á jörðu niðri og í geimnum, á að geta rannsakað þessu nýju heima nánar og skimað fyrir verksummerkjum um líf. Gastegundir eins og súrefni, metan og fosfín eru á meðal þeirra svonefndu „lífvísa“ sem menn munu nota til þess að þefa uppi líf á öðrum hnöttum. „Fosfín er ein þeirra gastegunda, einn þessara lífvísa, sem risasjónaukar og geimsjónaukar framtíðar eiga að leita eftir í andrúmslofti annarra reikistjarna,“ segir Sævar Helgi. Margar þeirra fjarreikistjarna sem hafa fundist til þessa eru gasrisar sem bera meiri líkindi við Júpíter eða Neptúnus en jörðina. Sævar Helgi segir að vangaveltur hafi verið um hvort að lífverur gætu þrifist í lofthjúpi slíkra reikistjarna. Engin merki hafi þó nokkru sinni fundust um slíkt. Hann útilokar þó möguleikann ekki í ljósi tíðinda frá Venusi. Geimurinn Venus Vísindi Fréttaskýringar Mest lesið Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Ása hyggst selja húsið og flytur ásamt börnum sínum Erlent Ögurstund runnin upp í Karphúsinu Innlent Sundhnúksgígaröðin að verða búin Innlent Kæla öll „hraunaugu“ og loka þeim Innlent Fjölskyldan brást vel við nýju húðflúri þingmannsins Innlent Vinstrið muni bera sigur úr býtum að öllu óbreyttu Innlent Vargöldin á Haítí versnar hratt Erlent „Þetta var mjög skrýtin stemning“ Erlent Engar sýnilegar breytingar á hraunflæði eða krafti Innlent
Gastegund sem gæti verið afurð örvera fannst við rannsóknir á reikistjörnunni Venusi. Vangaveltur hafa lengi verið uppi um að líf gæti mögulega þrifist í efri lögum lofthjúps reikistjörnunnar en þetta er í fyrsta skipti sem mögulegar vísbendingar um líf þar hafa fundist. Alþjóðlegur hópur vísindamanna tilkynnti í dag að hann hefði fundið fyrstu vísbendingarnar um að örverur þrífist í háskýjum á Venusi. Í litrófsmælingu á lofthjúpnum fundu þeir gastegundina fosfín í snefilmagni. Á jörðinni er gasið framleitt og notað í ýmsum efnaiðnaði, til dæmis textíliðnaði og í skordýraeitur. Fosfín, sem er eitrað mönnum, verður líka til sem aukaafurð loftfirrtra örvera á jörðinni. Þær taka upp fosfór úr steinefnum og lífrænu efni, bæta við það vetni og mynda fosfín sem úrgang. Fundur fosfíns á Venusi vekur mönnum þannig von í brjósti um að það gæti verið merki um örverulíf þar. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, segir uppgötvunina gríðarlega spennandi og að áhugi vísindamanna á Venusi komi til með að aukast á næstu árum vegna hennar. „Við viljum auðvitað útiloka allar mögulegar ólífrænar uppsprettur fosfíngassins áður en við ályktum sem svo að það sé af völdum lífs. Við þekkjum engin efnafræðileg ferli í lofthjúpi Venusar sem geta útskýrt gasið og það magn sem það mælist í. Eldvirkni og eldingar hafa sömuleiðis verið útilokaðar,“ segir hann við Vísi. Fosfínsameindir fundust í skýjum hátt í lofthjúpi Venusar. Þær gætu verið vísbending um að örverur svífi um í háloftunum þar.ESO/M. Kornmesser/L. Calçada & NASA/JPL/Caltech Helvískar aðstæður við yfirborðið Uppgötvunin markar tímamót. Venusi svipar að mörgu leyti til jarðarinnar og hefur verið nefnd tvíburasystir hennar. Reikistjörnurnar eru bergreikistjörnur, svipaðar að stærð og á svipuðum slóðum í sólkerfinu. Menn gerðu sér því lengi hugmyndir um að aðstæður á Venusi gætu verið áþekkar jörðinni og því lífvænlegar. Sáu þeir jafnvel fyrir sér að yfirborð Venusar væri þakið fenjum og þar væri að finna einhvers konar skriðdýr. Yfirborð Venusar er þakið þykkum lofthjúpi sem kom framan af í veg fyrir að vísindamenn gætu staðfest þessar tilgátur sínar um umhverfið á nágrannareikistjörnunni. Draumar um líf á Venusi brustu algerlega þegar fyrstu geimförin náðu þangað á 7. áratug síðustu aldar. Í ljós kom umhverfi sem hefur gjarnan verið líkt við helvíti. Venus er einn ólífvænlegasti staðurinn í sólkerfinu okkar. Óðagróðurhúsaáhrif þýða að hitinn við skraufþurrt yfirborðið er yfir 460°C. Loftþrýstingurinn er 92 sinnum meiri en við sjávarmál á jörðinni, sambærilegur við þrýstinginn á 900 metra dýpi í sjónum. Ekkert lífrænt efni á sér viðreisnar von þar. Aðstæðurnar eru svo fjandsamlegar að einu geimförin sem hafa lent á yfirborðinu, sovésku Venera-geimförin á 7., 8. og 9. áratugnum, krömdust eins og gosdósir undan þrýstingnum á skömmum tíma. Venera 13-geimfarið náði takmörkuðum myndum af yfirborði Venusar áður en hitinn, þrýstingurinn og sýran bar geimfarið ofurliði árið 1982.Vísindaakademía Sovétríkjanna Vísindamenn voru þó ekki af baki dottnir. Þeir sáu fyrir sér að líf gæti þrifist í einhverri mynd í skýjum í um fimmtíu til sextíu kílómetra hæð í lofthjúpi Venusar þar sem aðstæður eru mun skaplegri, hitinn á bilinu tuttugu til þrjátíu gráður og loftþrýstingurinn sami og við sjávarmál á jörðinni. Tilgátur voru settar fram að örverur gætu svifið um í háloftunum. Styrkur fósfíns í lofthjúpi Venusar er afar veikur, aðeins um tuttugu sameindir á móti milljarði. Útreikningar vísindamannana nú virðast útiloka tilgátur um að gasið verið til í slíku magni við náttúrulega ferla á reikistjörnunni, þar á meðal að það verði til við efnahvörf vegna sólarljós, það stígi upp frá yfirborðinu, í eldgosum eða við eldingar. Áætlar hópurinn að slíkir ferlar gætu aðeins búið til um tíu þúsundasta hluta þess magns sem þeir sjá í skýjunum. Aftur á móti þyrftu jarðneskar örverur aðeins að starfa á tíu prósent afköstum til að framleiða fosfín í því magni sem er til staðar á Venusi. Þyrftu að þola margfalt súrari aðstæður en á jörðinni Einn galli er þó á gjöf Njarðar. Þrátt fyrir að hitinn í efstu skýjum Venusar sé notalega mollulegur eru þau gallsúr. Þau eru enda að nær öllu leyti úr brennisteinssýru. Clara Sousa Silva frá MIT-háskóla í Bandaríkjunum sem tók þátt í uppgötvuninni, segir að örverur á jörðinni þoli allt að 5% sýrustig í umhverfi sínu. Súr skýin á Venusi eru því ekki beinlínis lífvænlegur staður fyrir örverur eins og við þekkjum þær á jörðinni. Sævar Helgi segir að mögulega örverur á Venusi þyrftu þannig að þola allt annað og fjandsamlegra umhverfi en á jörðinni. Ekki sé þó langt síðan að menn uppgötvuðu hita- og sýrukærar örverur á jörðinni á stöðum þá óraði ekki fyrir að líf gæti þrifist með nokkru móti. „Því meira sem við lærum um sérkennilegt jaðarlíf á jörðinni, þeim mun hugrakkari erum við að velta þeim möguleika að minnsta kosti fyrir okkur að eitthvað mjög óvænt lifi við erfiðar aðstæður annars staðar. Ég held alla vega að við ættum að vera opin fyrir þeim möguleika að þarna úti leynist líf sem þolir aðstæður sem við gætum varla ímyndað okkur,“ segir hann. Örverur á Venusi þyrftu ekki aðeins að þola gríðarlega súrt umhverfi heldur þyrftu þær einnig að hafa einhverja leið til að halda sér á lofti til að verða ekki steikjandi hitanum neðar í lofthjúpnum að bráð. Einnig þyrftu þær að geta staðið af sér vatnsskort án þess að þorna upp og skort á næringarefnum. „Það er heljarinnar áskorun en lífið hefur tilhneigingu til að vera ótrúlega harðgert og koma okkur sífellt á óvart,“ segir Sævar Helgi. Fordæmi eru um að örverur lifi í skýjum á jörðinni, stundum í vatnsdropum en einnig utan þeirra. Þær flytjast upp frá yfirborði jarðar og geta jafnvel orðið kjarnar sem raki í lofthjúpnum þéttist í kringum og verður að úrkomu. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins.Vísir/Baldur Vill senda loftbelgi til frekari rannsókna Frekari rannsókna er þörf til þess að skera úr um hvort að fosfíngasið á Venusi eigi sér lífrænan uppruna. „Við þyrftum að senda loftbelgi til Venusar til að rannsaka skýin betur. Slíkir leiðangrar eru á teikniborðinu og verða vonandi að veruleika í framtíðinni. Við þyrftum að ná í sýni til að finna út hvort það sé skylt lífinu á Jörðinni. Sá möguleiki er fyllilega fyrir hendi að jaðarörveru hafi borist með loftsteinum frá jörðinni til Venusar, eða öfugt. Svo gæti vel verið að þarna væri um að ræða líf sem kviknaði á Venusi,“ segir Sævar Helgi. Vísbendingar eru um að Venus hafi verið mun lífvænlegri hnöttur fyrr í sögu sólkerfisins. Landslagið þar ber þess merki að þar hafi verið haf fljótandi vatns. Talið er að það hafi gufað upp þegar gróðurhúsalofttegundir hrönnuðust upp í lofthjúpi Venusar sem ollu óðahlýnun. Lofthjúpur Venusar nú er að nær öllu leyti úr koltvísýringi. Sævar Helgi segir að þegar aðstæður voru líkari jörðinni á Venusi sé alls ekki útilokað að líf hefði getað kviknað á yfirborðinu og stigið til himna eftir að reikistjarnan breyttist í þann Múspellsheim sem hún er nú til dags. Venus er algerlega hulin þykkum lofthjúpi sem endurvarpar nær öllu sólarljósi aftur út í geim. Engu að síður er hitinn við yfirborðið hærri en í bakaraofni vegna óðagróðurhúsaáhrifa.ESA/C. Carreau Lífið líklega algengt í alheiminum ef það er til á Venusi Fyndu menn örverur á Venusi hefði það verulega þýðingu fyrir hugmyndir manna um líf í alheiminum, að mati Sævars Helga. „Að uppgötva líf, jafnvel þótt það séu „bara“ örverur, væri það einhver stórkostlegasta uppgötvun sögunnar. Við hefðum þá loks svar við spurningu sem hefur mannkynið hefur spurt sig í aldanna rás: Erum við ein? Að tveir hnettir í sólkerfinu okkar skörtuðu lífi myndi benda til þess að líf eigi sennilega fremur auðvelt með að kvikna og þrífast, meira að segja við aðstæður sem eru gerólíkar paradísinni Jörð. Ef svo er, þá er líf líklega mjög algengt í alheiminum,“ segir hann. Undanfarin ár og áratugi hafa stjarnfræðingar fundið þúsundir reikistjarna á braut um fjarlægar stjörnur. Næsta kynslóð sjónauka, bæði á jörðu niðri og í geimnum, á að geta rannsakað þessu nýju heima nánar og skimað fyrir verksummerkjum um líf. Gastegundir eins og súrefni, metan og fosfín eru á meðal þeirra svonefndu „lífvísa“ sem menn munu nota til þess að þefa uppi líf á öðrum hnöttum. „Fosfín er ein þeirra gastegunda, einn þessara lífvísa, sem risasjónaukar og geimsjónaukar framtíðar eiga að leita eftir í andrúmslofti annarra reikistjarna,“ segir Sævar Helgi. Margar þeirra fjarreikistjarna sem hafa fundist til þessa eru gasrisar sem bera meiri líkindi við Júpíter eða Neptúnus en jörðina. Sævar Helgi segir að vangaveltur hafi verið um hvort að lífverur gætu þrifist í lofthjúpi slíkra reikistjarna. Engin merki hafi þó nokkru sinni fundust um slíkt. Hann útilokar þó möguleikann ekki í ljósi tíðinda frá Venusi.