Innlent

Lagði til óbreytt fyrirkomulag á landamærum til 6. október

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir kynnti tillögur að breytingum á kórónuveiruaðgerðum stjórnvalda á ríkisstjórnarfundi í morgun. Annars vegar minnisblað þess efnis að ráðstafanir á landamærum yrðu óbreyttar til 6. október næstkomandi og hins vegar styttingu á sóttkví.

Núverandi fyrirkomulag á landamærum hefur verið í gildi síðan 19. ágúst. Allir farþegar sem koma hingað til lands frá útlöndum hafa síðan þá þurft að fara í tvær skimanir eftir komuna til landsins, fyrst á landamærum og svo að lokinni fjögurra til fimm daga sóttkví. Með tillögum heilbrigðisráðherra verður þessu haldið áfram í minnst þrjár vikur til viðbótar.

Hinn tillagan sem heilbrigðisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun snýr að styttingu á sóttkví. Með henni verður fólki sem þarf að fara í sóttkví gefinn kostur á að fara í sýnatöku eftir sjö daga. Reynist sýnið neikvætt fyrir kórónuveirunni getur viðkomandi lokið sóttkvínni í stað þess að klára viku til viðbótar, líkt og núverandi fyrirkomulag kveður á um. Um er að ræða tillögu sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kynnti á upplýsingafundi vegna veirunnar nú í vikunni.

Svandís sagði í samtali við Heimi Má Pétursson fréttamann fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun að aðgerðirnar sem beitt hefur verið á landamærum hafi sýnt árangur. Hún teldi að það yrði íbúum landsins ánægjulegt að njóta tilslakana á innanlandsaðgerðum með því að halda fyrirkomulaginu á landamærum óbreyttu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Ekkert innan­lands­smit í gær

Ekkert kórónuveirusmit greindist innanlands í gær. Á landamærunum greindist eitt smit og er þar beðið er eftir niðurstöðum mótefnamælingar.

Veiran sem virðist komin til að vera

Ríflega hálft ár er liðið frá því að fyrsta tilfelli kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum Covid-19 greindist hér á landi þann 28. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×