Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar, var ánægð eftir sigurinn á FH, 29-21, í upphafsleik tímabilsins í Olís-deild kvenna.
„Í heildina er ég rosalega sátt. Það var smá hökt á okkur í byrjun og bil á milli okkar í vörninni. En svo unnum við okkur þétt inn í leikinn. Ég er virkilega ánægð með þennan sigur,“ sagði Rakel í samtali við Vísi í leikslok.
Fyrir utan upphafsmínútur leiksins var vörn Stjörnunnar góð og skapaði ellefu mörk úr hraðaupphlaupum.
„Við héldum vel í leikplanið og svo þéttum við vörnina sem var svolítið opin í upphafi leiks. Við náðum líka að keyra hraðann upp og fengum framlag frá öllum leikmönnum,“ sagði Rakel.
Stjarnan fékk heldur betur gott framlag frá aldursforsetanum í hópnum, Hönnu G. Stefánsdóttur, sem skoraði níu mörk í fyrri hálfleik.
„Hún er magnaður karakter og magnaður leikmaður. Hún var besti maður vallarins í fyrri hálfleik og algjörlega frábær. Hún gæti spilað í tíu ár í viðbót,“ sagði Rakel að lokum.