Evrópumeistarinn Sara Björk Gunnarsdóttir kemur til Íslands eftir fullkomið sumar með liðum Lyon og Wolfsburg, fyrir leikina mikilvægu við Lettland og Svíþjóð í undankeppni EM.
Sara kom inn á sem varamaður í kvöld, á 49. mínútu, í 3-0 útisigri Lyon gegn Reims í 2. umferð frönsku 1. deildarinnar. Nakita Parris og Janice Cayman skoruðu fyrir Lyon og eitt markið var sjálfsmark.
Sara hefur þar með unnið alla tíu leikina sem hún hefur spilað síðan að kórónuveirufaraldurinn setti mótahald úr skorðum í mars. Á þeim tíma hefur hún orðið Þýskalandsmeistari, þýskur bikarmeistari og Evrópumeistari.
Raunar hefur Sara ekki tapað alvöru leik, hvorki með landsliði né félagsliði, í eitt og hálft ár. Það er að segja ef vináttulandsleikir eru undanskildir, en Ísland tapaði gegn Frökkum í október í fyrra. Ef sá leikur, sem og sigrar í vináttulandsleikjum, eru ekki taldir með hefur Sara samkvæmt Soccerway leikið 39 leiki án taps, og þar af er aðeins eitt jafntefli, síðan hún tapaði gegn sínu núverandi liði Lyon í Meistaradeildinni í mars 2019.
Hvert stig dýrmætt í undankeppni EM
Með þetta í farteskinu heldur Sara nú til Íslands vegna hinna gríðarlega mikilvægu leikja við Lettland og Svíþjóð í undankeppni EM sem fram undan eru á Laugardalsvelli. Íslendingar mæta Lettum næsta fimmtudag og svo Svíum, efsta liði riðilsins, 22. september.
Ísland og Svíþjóð hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína í undankeppninni og berjast því um að komast beint á EM í Englandi með því að ná efsta sætinu. Svíar eru með fimm mörkum betri markatölu. Liðin mætast einnig í Svíþjóð 27. október.
Hvert stig er mikilvægt því að þrjú lið með bestan árangur í 2. sæti, í undanriðlunum níu, komast einnig beint á EM. Hin sex fara í umspil um þrjú laus sæti.